Samningur til 5 ára
Landsvirkjun og gagnaver atNorth á Akureyri hafa samið um kaup gagnaversins á allt að 12 MW forgangsorku frá og með síðari hluta næsta árs. Samningurinn er til fimm ára og þar sem atNorth kaupir einnig upprunaábyrgðir flokkast samningurinn sem grænn raforkusamningur.
Vegna takmarkana í flutningskerfi raforku er orkuframboð á Norðurlandi meira en sunnanlands og því hægt að gera langtímasamninga um forgangsorku við fyrirtæki í þeim landshluta.
atNorth hefur verið viðskiptavinur Landsvirkjunar um árabil, en hér á landi rekur fyrirtækið einnig gagnaver í Hafnarfirði og Reykjanesbæ sem og í Svíþjóð, Danmörku og Finnlandi. Fyrir tveimur árum gerðu atNorth og Landsvirkjun allt að 5 MW forgangsorkusamning samhliða því að atNorth hóf rekstur á Akureyri. Nýr samningur felur í sér viðbótarmagn og lengir samningstímann, en gagnaverið mun alls hafa 12 MW til umráða frá Landsvirkjun fyrir starfsemi sína á Akureyri.