Losun vegna orkuvinnslu dregst saman á fyrri árshelmingi

02.09.2025Umhverfi

Hálfsársuppgjör loftslagsbókhalds Landsvirkjunar 2025 er komið út.

Losun vegna orkuvinnslu dregst saman

Hálfsársuppgjör 2024 á pdf

Losun vegna orkuvinnslu á orkueiningu fyrri hluta ársins nam 2,8 grömmum koldíoxíðígilda á hverja unna kílóvattstund á fyrri helmingi ársins og dróst saman um 7% frá árinu áður. Samdráttinn má rekja til þess að losun frá jarðvarmastöðvum minnkaði um 14% milli ára vegna minni vinnslu í Kröflustöð, en losun frá jarðvarmavinnslu er stærsti einstaki liðurinn í losun okkar. Losun frá lónum jókst um 42% frá fyrra ári, en hún er háð veðurfari og ræðst af fjölda þeirra daga sem lón eru ísilögð.

Heildarlosun jókst vegna framkvæmda

Sjá loftslagsbókhald síðustu ára

Heildarlosun gróðurhúsalofttegunda frá starfsemi Landsvirkjunar, bæði vegna orkuvinnslu og framkvæmda, nam 5,1 g CO2-íg/kWst og jókst um 19% á milli ára. Mæld í tonnum jókst hún um 16% og nam 34.400 tonnum CO2-ígilda. Þessa aukningu má að mestu leyti rekja til aukinna framkvæmdaumsvifa, en við vinnum nú að uppbyggingu fyrsta vindorkuvers landsins, Vaðölduvers, og undirbúningsframkvæmdum fyrir Hvammsvirkjun. Kolefnisspor á orkueiningu, þ.e.a.s. losun að frádreginni kolefnisbindingu, var 2,3 gCO₂-íg/kWst. Mælt í tonnum var kolefnissporið 15.853 tonn CO2-ígilda.

Forðuð losun vegna raforkuvinnslu Landsvirkjunar á fyrri hluta ársins nam um 1,2 milljónum tonna CO2-ígilda.

Orkuvinnsla enn í samræmi við markmið um 1,5°C hlýnun

Orkuvinnsla okkar samræmist áfram markmiðum heims um 1,5°C hlýnun og heildarlosun er áfram undir viðmiðum um kolefnishlutleysi orkufyrirtækja, 9,1 g CO2-íg/kWst, sem fjallað er um í aðgerðaáætlun okkar í loftslags- og umhverfismálum.

Við gefum árlega út hálfsársuppgjör loftslagsbókhalds þar sem við birtum tölulegar upplýsingar um losun vegna starfsemi fyrirtækisins á fyrri helmingi ársins. Það er unnið út frá aðferðafræði Greenhouse Gas Protocol (GHGP), alþjóðlegs fyrirtækjastaðals fyrir upplýsingagjöf um losun gróðurhúsalofttegunda.