60 milljónum úthlutað úr Orkurannsókna­sjóði

10.02.2021Fjármál

Á fjórtán starfsárum sjóðsins hefur hann veitt styrki að upphæð 788 milljónir króna.

60 milljónum króna var úthlutað úr Orkurannsóknasjóði Landsvirkjunar í ár, en í dag fór fram með fjarfundabúnaði fjórtánda úthlutun sjóðsins til margvíslegra verkefna á sviði umhverfis- og orkumála.

Að þessu sinni voru veittir 36 verkefnastyrkir til orkumála og til rannsókna á náttúru og umhverfi; þar með taldar rannsóknir til notkunar vistvænna orkugjafa í samgöngum og iðnaði. Um þriðjungur styrkjanna voru framhaldsstyrkir.

Alls bárust að þessu sinni 64 umsóknir um rannsóknarverkefni með samanlögðum óskum um 159 m.kr. til verkefna á árinu 2021, en sem fyrr segir voru til ráðstöfunar 60 milljónir króna. Ljóst er því, að margar vel hæfar umsóknir gátu ekki fengið styrk að þessu sinni.

788 milljónir á tólf árum

Á fjórtán starfsárum sjóðsins hefur hann veitt styrki að upphæð 788 milljónir króna. Að meðtöldum styrkveitingum þessa árs hefur sjóðurinn veitt 334 styrki til rannsóknarverkefna. Viðfangsefnin í námi og rannsóknaverkefnum skiptast nokkuð að jöfnu milli orku- og virkjunarmála og náttúru- og umhverfismála.

Um Orkurannsóknasjóð

Tilgangur sjóðsins að efla rannsóknir á sviði umhverfis- og orkumála, hvetja námsmenn til að velja sér viðfangsefni á þessu sviði, gera fjárframlög Landsvirkjunar til rannsókna skilvirkari og sýnilegri og tryggja að þær rannsóknir sem sjóðurinn styrkir samrýmist umhverfisstefnu fyrirtækisins.

Nánari upplýsingar um sjóðinn má finna hér