Nýr raforkusamningur Landsvirkjunar styður stækkun gagnavera atNorth

01.07.2021Viðskipti
Frá vinstri: Tinna Traustadóttir, framkvæmdastjóri Sölu og þjónustu hjá Landsvirkjun, Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar og Eyjólfur Magnús Kristinsson, forstjóri atNorth.
Frá vinstri: Tinna Traustadóttir, framkvæmdastjóri Sölu og þjónustu hjá Landsvirkjun, Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar og Eyjólfur Magnús Kristinsson, forstjóri atNorth.

Fyrr á árinu var gengið frá öðrum slíkum samningi og er því um mikla aukningu í viðskiptum að ræða á stuttum tíma

Landsvirkjun hefur gert nýjan raforkusamning til tveggja ára til að styðja við áframhaldandi vöxt gagnavera atNorth. Fyrr á árinu var gengið frá öðrum slíkum samningi og er því um mikla aukningu í viðskiptum að ræða á stuttum tíma. AtNorth er 100% eigandi ADC ehf., sem hefur verið viðskiptavinur Landsvirkjunar um árabil. Starfsmenn eru um 50 talsins auk fjölda verktaka og árleg heildarvelta nemur yfir sex milljörðum króna. Starfsemin fer að mestu fram hér á landi en í lok ársins er áformað að taka í notkun gagnaver í Stokkhólmi, þar sem hitinn frá tölvubúnaði verður nýttur til húshitunar.

Gagnaverið sem hefur vaxið hratt á undanförnum árum er staðsett á Fitjum í Reykjanesbæ og er gagnaverið eitt það stærsta í Evrópu. Raforkusamningurinn gerir atNorth kleift að mæta sívaxandi eftirspurn eftir ofurtölvuafli og sérfræðiþjónustu í bálkakeðjutækni (e. blockchain). Í takt við aukna eftirspurn var nýverið lokið við stækkun á þeim hluta gagnaversins sem tryggir hámarks rekstraröryggi og uppfyllir strangar öryggiskröfur. Slík skilyrði eru forsenda þess að þjónusta framsækin alþjóðleg fyrirtæki sem nýta ofurtölvur, t.d. á sviði gervigreindar og útreikninga fyrirtækja sem eru umsvifamikil á sviði rannsókna og vísinda. Markaðssókn til framtíðar beinist í auknum mæli að slíkum verkefnum.

Aðstæður hér á landi eru ákjósanlegar fyrir starfsemi gagnavera með fyrirsjáanlegum raforkuverðum, endurnýjanlegri uppsprettu orkunnar og köldu loftslagi sem dregur úr kostnaði við kælingu á tölvubúnaði.

Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar:

„Gagnaversiðnaður er í örum vexti á heimsvísu og nágrannalöndin keppast við að laða slíka starfsemi til sín. Samstarfið við atNorth hefur verið með miklum ágætum og nýr raforkusamningur samkeppnishæfur í alþjóðlegu tilliti. Kröfur um sjálfbærni í rekstri fyrirtækja eru að aukast og veitir raforka úr endurnýjanlegum orkulindum viðskiptavinum visst samkeppnisforskot. Það er afar ánægjulegt að rekstur atNorth gengur vel og geta stutt við áframhaldandi vöxt félagsins. Núverandi aflstöðvakerfi okkar mun sjá gagnaverinu fyrir orku, en starfsemi gagnaveranna hér á landi hefur bætta nýtingu raforkukerfisins í för með sér sem er fagnaðarefni.“

Eyjólfur Magnús Kristinsson, forstjóri atNorth:

„Mikil tækifæri eru falin í því fjölbreytta þjónustuframboði sem við höfum byggt upp í okkar gagnaverum hér á landi en undanfarin misseri hefur áhugi á þeim gagnaversþjónustum sem lúta háum rekstrar- og öryggiskröfum verið mikill og leitt af sér umfangsmikil verkefni hjá okkur. Okkar núverandi viðskiptavinir hafa verið að stækka talsvert við sig en við verðum einnig vör við aukningu í eftirspurn frá nýjum aðilum frá fyrra ári. Ef fram heldur sem horfir mun ekki verða neitt lát á uppbyggingarverkefnum tengdum öruggum gagnavershýsingum okkar bæði hérlendis og erlendis.“