En nú hófst einhver ótrúlegasta og óskilvirkasta málsmeðferð sem nokkurt verkefni á Íslandi hefur gengið í gegnum.
- Í stað þess að Orkustofnun afgreiddi virkjunarleyfi á þremur til fimm mánuðum tók það stofnunina 18 mánuði. Virkjunarleyfið kom loksins í desember 2022. Þessi seinkun reyndist mjög afdrifarík.
- Í apríl 2022, 11 mánuðum eftir að Landsvirkjun sótti um virkjunarleyfið, ákvað ráðherra að leggja fram vatnaáætlun í fyrsta sinn. Á sama tíma og fyrsta virkjunarleyfið fyrir vatnsaflsvirkjun sem samþykkt hafði verið í orkunýtingarflokk rammaáætlunar á Alþingi var í umsóknarferli. Vatnaáætlun var lögð fram án þess að tryggja samræmi á milli þessara tveggja áætlana (eins og lög mæla fyrir um) og án þess að viðeigandi stofnanir væru styrktar til að takast á við þetta verkefni. Þetta dró sannarlega dilk á eftir sér.
- Í júní 2023 felldi Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála virkjunarleyfið úr gildi, með vísan til þess að við veitingu virkjunarleyfis hefði Orkustofnun ekki haft nauðsynlegt samráð við Umhverfisstofnun um hvort að fyrirhuguð framkvæmd samræmdist vatnáætlun.
- Í niðurstöðu úrskurðarnefndarinnar komu fram leiðbeiningar fyrir leyfisveitendur um með hvaða hætti væri unnt að sækja um og veita heimild til breytinga á vatnshloti skv. 18. gr. laga um stjórn vatnamála.
- Í samræmi við leiðbeiningar úrskurðarnefndarinnar hóf Orkustofnun á ný málsmeðferð við að undirbúa veitingu virkjunarleyfis og gaf það aftur út í september 2024, 15 mánuðum eftir að fyrra leyfi var fellt úr gildi.
- Þetta leyfi var síðan kært til Héraðsdóms sem felldi það úr gildi í janúar 2025. Nú með þeim rökum að Umhverfisstofnun hefði ekki heimild til þess að veita heimild til breytinga á vatnshloti með þeim hætti sem Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála hafði í janúar 2023 veitt leiðbeiningar um!
- Nú í júlí 2025 staðfesti Hæstiréttur dóm Héraðsdóms. Æðsti dómstóll okkar sagði að Alþingi hefði augljóslega gert mistök við lagasetningu á árinu 2011, þegar þingmenn breyttu orðalagi lagaákvæðis á milli annarrar og þriðju umræðu, til að laga íslenskt málfar! Hæstiréttur tekur sérstaklega fram að það sé ekki hlutverk hans að leiðrétta mistök löggjafans. Eftir þá breytingu túlkar Hæstiréttur lögin á þann hátt að óheimilt sé að heimila allar nýjar framkvæmdir á Íslandi sem breyti vatnshloti. Þar falla undir virkjanir, vatnsveitur, brúargerð, vegagerð, hafnargerð o.fl.
Hvammsvirkjun, þessi mikilvæga framkvæmd, hefur frá árinu 2021 uppfyllt öll skilyrði sem gerð eru til undirbúnings virkjana. Samt erum við í þeirri stöðu árið 2025 að þurfa að sækja aftur um nýtt virkjunarleyfi á grundvelli nýrra laga sem Alþingi samþykkti samhljóða nú í júní og öðluðust gildi 3. júlí. Við erum því á ný komin á byrjunarreit, ekki vegna annmarka á umsókn, mati á umhverfisáhrifum, rannsóknum, mótvægisaðgerðum eða öðru, heldur eingöngu formgalla. Landsvirkjun þarf því á ný að hefja umsóknarferlið með tilheyrandi kæruferli sem enn getur tafið verkefnið.
Í allri þessari ótrúlegu málsmeðferð síðustu fjögur ár hefur hvergi verið tekið undir athugasemdir við útfærslu virkjunarinnar eða áhrif hennar á samfélag og umhverfi. Úrskurðaraðilar hafa engar athugasemdir gert við undirbúning Landsvirkjunar og þau gögn sem fyrirtækið hefur lagt fram. Sá málatilbúnaður andstæðinga virkjunarinnar til að tefja framkvæmdirnar sem tekið hefur verið undir snýst eingöngu um veikleika og óskýrleika í lögum og verklagi stjórnvalda. Það snýst um formsatriði, ekki efnisatriði enda liggur allt þar skýrt fyrir eftir langan og vandaðan undirbúning.