AIB bannar útflutning á upprunaábyrgðum frá Íslandi

05.05.2023Viðskipti

AIB, Evrópsk samtök útgefenda upprunaábyrgða, hafa bannað útflutning upprunaábyrgða raforku frá Íslandi. Hér á landi annast Landsnet útgáfu upprunaábyrgðanna og hefur lýst því yfir að brugðist verði við hart til að leysa málið, í samstarfi við AIB. Miklir hagsmunir eru í húfi og af hálfu Landsvirkjunar eru efasemdir um réttmæti ákvörðunar AIB. Mikilvægast er að allri óvissu verði aflétt sem allra fyrst.

Í fréttatilkynningu AIB segir að ástæða útflutningsbannsins sé sú að hér á landi sé vinnsla grænnar orku tvítalin. Stærstu orkunotendur hérlendis fullyrði að þeir noti græna orku í starfsemi sinni, án þess að hafa keypt upprunaábyrgðir sem heimili þeim slíkt.

Kerfi upprunaábyrgða var innleitt á Íslandi árið 2008, en 28 lönd eiga nú aðild að því. Landsnet, sem rekur uppbyggingu og rekstur flutningskerfis raforku, er útgefandi upprunaábyrgðanna hér á landi. Með aðild að EES er Íslandi skylt að gefa raforkusölum kost á að fá útgefnar upprunaábyrgðir. Engum er skylt að kaupa ábyrgðirnar, en sífellt fleiri fyrirtæki sjá sér hag í að geta sýnt fram á græna orkuvinnslu sína með óyggjandi hætti, eða sýnt fram á stuðning við græna orkuvinnslu, búi þeir á svæði þar sem hennar nýtur ekki við.

Skortur á viðbrögðum eftirlitsaðila

Landsvirkjun er eitt þeirra orkufyrirtækja á Íslandi sem selja upprunaábyrgðir. Orkufyrirtækin hafa engin úrræði til að koma í veg fyrir að viðskiptavinir lýsi því yfir að orkunotkun þeirra komi frá endurnýjanlegum orkugjöfum án þess að hafa keypt upprunaábyrgðir sem er skilyrði fyrir slíkum yfirlýsingum. Í raun er um að ræða rangar og villandi upplýsingar í auglýsingum, eða öðru efni, sem er óheimilt samkvæmt lögum. Ekki hefur verið brugðist við þessari háttsemi af hálfu stjórnvalda.

Sala upprunaábyrgða vegna endurnýjanlegrar orkuvinnslu hefur aukist hröðum skrefum undanfarin ár. Tekjur íslenskra orkufyrirtækja vegna hennar nema milljörðum á þessu ári og fyrirsjáanlegt að þær gætu farið í nokkra tugi milljarða á næstu árum.