Aukin eftirspurn eftir raforku og þróun í vatnsbúskap kalla á endurskoðun skammtímaverðs rafmagns

05.11.2021Viðskipti

Eftirspurn eftir raforku frá Landsvirkjun hefur aukist umtalsvert undanfarna mánuði. Á sama tíma hefur þróun í miðlunarkerfi fyrirtækisins verið með þeim hætti að nauðsynlegt er að hækka verð Landsvirkjunar á skammtímamarkaði, til að stuðla að jafnvægi á milli framboðs og eftirspurnar eftir rafmagni.

Áætla má að hækkunin nái til mjög lítils hluta sölu Landsvirkjunar og nemi að meðaltali um 4%, þótt einstakar vörur hækki um allt að 18%. Áætlað er að hækkunin hafi óveruleg áhrif á raforkureikning dæmigerðs heimilis. Flestir samningar Landsvirkjunar og viðskiptavina eru bundnir til lengri tíma, svo hækkunin nær aðeins til nýrra samninga, m.a. til sölufyrirtækja rafmagns sem selja áfram til heimila og almennra fyrirtækja.

Óhagstæð þróun í vatnsbúskap og mikil eftirspurn

Í upphafi vatnsárs, sem hófst 1. október, voru öll miðlunarlón Landsvirkjunar full nema Þórisvatn. Í ljósi þess var ekki nauðsynlegt á þeim tímapunkti að hækka skammtímaverð á raforku. Nú í október hefur innrennsli á vatnasvæðum Landsvirkjunar verið undir meðallagi, sérstaklega á Austurlandi. Staða miðlunarlóna lækkaði skarpt í byrjun október, sem er óvenju snemmt, og hefur lækkunin verið eindregin síðustu tvær vikur.

Á sama tíma hefur nánast verið full nýting á vinnslukerfi okkar. Vegna hækkunar á afurðaverðum á mörkuðum stórnotenda hefur nýting þeirra á raforkusamningum aukist til muna og eru í dag nánast allir samningar viðskiptavina Landsvirkjunar fullnýttir. Aukin eftirspurn er einnig á heildsölumarkaði vegna aukinna umsvifa í hagkerfinu, m.a. í uppsjávarveiðum.

Í ljósi þessarar stöðu er gripið til fyrrnefndrar endurskoðunar á skammtímaverði rafmagns. Grannt verður fylgst með þróuninni á næstu vikum og mánuðum, en ef vatnsstaðan þróast með jákvæðum hætti á næstunni má gera ráð fyrir að verð á skammtímamarkaði lækki.

Raunlækkun á heildsöluverði undanfarin ár

Verð Landsvirkjunar á heildsölumarkaði hefur hækkað minna en sem nemur breytingum á vísitölu neysluverðs á undanförnum árum. Lægsta verð sölufyrirtækja til notenda hefur einnig lækkað á föstu verðlagi, eða um 20% frá 2018. Verðlagning Landsvirkjunar tekur m.a. mið af framboði og eftirspurn og stöðu í miðlunarlónum. Verðbreytingar vegna undirliggjandi áhrifaþátta eru færðar inná viðskiptavef okkar og eiga sér stað örar en áður.

Erlendis er þekkt að verð á orkumörkuðum sveiflist með stöðu í vatnsbúskapnum. Árið 2020 var verð á norræna orkumarkaðnum Nord Pool það lægsta frá stofnun markaðarins í lok síðustu aldar. Það lága verð orsakaðist af miklu framboði frá vatnsafli og vindorku vegna veðurfars. Staðan snerist svo við á þessu ári þar sem lítið framboð vatnsafls og vindorku hefur orsakað há verð. Sem dæmi má nefna að meðalverð októbermánaðar 2021 var fjórfalt hærra en sama mánaðar árið 2020. Meðalverðið það sem af er ári eru um 52 EUR/MWst og er það hæsta ársverð á markaðnum frá 2010.

Gagnsæi í raforkuverði og virk samkeppni á raforkumarkaði eru okkar keppikefli. Landsvirkjun hefur komið til móts við breyttar þarfir í viðskiptaumhverfinu með því að þróa fyrirkomulag viðskipta undanfarin misseri. Þannig hafa tímamörk fyrir innkaup á raforku í heildsölu verið afnumin, rafrænn þáttur viðskiptanna aukinn, sem og sveigjanleiki í innkaupum á grunnorku.