Endurkaup hafin

30.01.2024Viðskipti
Ljósafossstöð
Ljósafossstöð

Landsvirkjun hefur virkjað ákvæði í orkusamningum við Elkem sem gerir orkufyrirtækinu kleift að kaupa forgangsorku til baka frá kísilmálmverksmiðjunni, á fyrirfram umsömdu verði.

Landsvirkjun sendi 19. janúar sl. stórnotendum á suðvesturhluta landsins ósk um viðræður um hvort orkufyrirtækið geti keypt raforku til baka af þessum viðskiptavinum sínum. Slík endurkaup eru síðasta og dýrasta úrræði Landsvirkjunar til að verjast lágri stöðu miðlunarforðans.

Öll fyrirtækin nýta raforkusamninga sína vel og langt umfram þá kaupskyldu sem kveðið er á um í samningum þeirra, en Landsvirkjun vill kanna hvort þau hafi svigrúm til að nýta minni orku á næstunni. Þar er ekkert fast í hendi enn.

Endurkaupaákvæði í samningum Landsvirkjunar og Elkem hefur verið virkjað nokkrum sinnum áður, síðast árið 2014.