Endursala stórnotenda er engin töfralausn
Full ástæða er til að hafa áhyggjur af raforkuöryggi almennings og nauðsynlegt er að auka virkni heildsölumarkaðar. Hvorugt verður þó tryggt með því að heimila stórnotendum að endurselja raforku inn á kerfið, orku sem þeir ella myndu nota í eigin rekstur.
Raforkukerfið okkar er í þröngri stöðu og eðlilegt að allar leiðir til úrbóta séu ræddar. Almenni markaðurinn, þ.e. heimili og fyrirtæki önnur en stórnotendur, notar um 20% af allri raforku sem unnin er, en stórnotendur um 80%. Við fyrstu sýn kann endursala stórnotenda inn á kerfið því að hljóma sem einfalt mál og hugsanleg töfralausn í þröngri stöðu.
Hafa verður í huga að raforkukerfið okkar er einstakt á heimsvísu. Það er eingöngu knúið af endurnýjanlegum orkugjöfum og gengið þannig frá samningum við stórnotendur raforku að ekki er þörf á að vera með plan B í formi jarðefnaeldsneytis, líkt og í öðrum löndum. Ætla mætti að slíkt kerfi væri ekki hægt að reka svo vel færi. Staðreyndirnar tala hins vegar sínu máli: nýting auðlinda og fjárfestingar í orkuframleiðslu eru með því allra besta sem þekkist í heiminum. Iðnaður hefur verið samkeppnishæfur og raforkuverð til almennings lágt og stöðugt. Þá hefur raforkuöryggi til þessa verið tryggt.