Mikilvægasta fyrirtækið í opinberri eigu
Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir fjármála- og efnahagsráðherra, sem fer með eignarhlut þjóðarinnar í Landsvirkjun, ávarpaði fundinn og óskaði fyrirtækinu, starfsfólki þess og eigendum öllum til hamingju með gríðarsterka rekstrarniðurstöðu orkufyrirtækis þjóðarinnar.
Ráðherra lagði áherslu á mikilvægi þess að máta allar ákvarðanir í raforkumálum við þjóðaröryggi, við yrðum að vera undirbúin fyrir áföll og högg.
Landsvirkjun væri mikilvægasta fyrirtæki á Íslandi í opinberri eigu.

Jónas Þór Guðmundsson stjórnarformaður lagði sérstaka áherslu á uppbyggingu Landsvirkjunar sl. áratug, þegar þrjár virkjanir voru teknar í notkun, að Búðarhálsi, Þeistareykjum og Búrfelli II.
Þær fjárfestingar hefðu stuðlað að endurreisn íslensks efnahagskerfis eftir hrunið sem lá enn eins og mara á þjóðinni.