Fyrirtæki skapa virðiskeðju vetnis

23.11.2023Orkuskipti

Landsvirkjun og Linde hafa ákveðið að starfa með tveimur fyrirtækjum, N1 og Olís, að uppbyggingu virðiskeðju græns vetnis á Íslandi.

Gera vetni að raunhæfum kosti í samgöngum á Íslandi

Landsvirkjun og Linde hafa ákveðið að starfa með tveimur fyrirtækjum, N1 og Olís, að uppbyggingu virðiskeðju græns vetnis á Íslandi. Markmiðið er að gera vetni að raunhæfum kosti í samgöngum á Íslandi, ekki síst fyrir vörudreifingu, þungaflutninga og stærri farartæki, þar sem bein rafvæðing hentar síður.

Landsvirkjun og Linde vinna að orkuskiptum með þróun grænna vetnis- og rafeldsneytisverkefna og tilkynntu í apríl sl. um formlegt samstarf tengt því. Slík verkefni skipta sköpum við að draga úr notkun jarðefnaeldsneytis á Íslandi og stuðla að orkuskiptum landsins. Samhliða tæknilegum undirbúningi vetnisframleiðslu hafa fyrirtækin tvö verið í nánu samtali við ýmsa hagaðila á Íslandi til að undirbúa orkuskipti með vetni. Þá stefna Landsvirkjun og Linde sameiginlega að stofnun sérstaks félags sem mun framleiða vetni og annast heildsölu þess.

Með undirritun tveggja viljayfirlýsinga, við N1 annars vegar og Olís hins vegar, hafa Landsvirkjun og Linde nú fengið til liðs við sig öflug samstarfsfyrirtæki sem vilja sjá um flutning vetnis, áfyllingu þess og smásölu. Bæði fyrirtækin hafa, rétt eins og Landvirkjun og Linde, hug á því að styðja við orkuskipti og leggja sitt af mörkum í baráttunni við loftslagsbreytingar.

Uppbygging virðiskeðju vetnis á Íslandi, allt frá framleiðslu til notenda, styður við orkuskipti íslensks atvinnulífs og þau fyrirtæki sem vilja hleypa orkuskiptaverkefnum af stokkunum, hvort sem er á landi, sjó eða í flugi. Fyrirtækin ætla sér að vera samstíga notendum á þeirri vegferð að draga verulega úr notkun jarðefnaeldsneytis í samgöngum.