Fyrsta rafmagnsflugvélin á Íslandi

05.07.2022Umhverfi

Mikilvæg tímamót hafa verið mörkuð í íslenskri flugsögu en fyrsta rafmagnsflugvél Íslands hefur fengið flughæfisskírteini og mun senn hefja flugið. Fjölmargir aðilar koma að verkefninu en hluthafar og bakhjarlar félagsins eru Landsvirkjun, Icelandair, Isavia, Hótel Rangá, Landsbankinn, Flugskólinn Geirfugl, Flugskóli Reykjavíkur, Flugakademía Íslands, Matthías Sveinbjörnsson, Friðrik Pálsson og Herjólfur Guðbjartssyni

Félagið Rafmagnsflug ehf. flutti vélina til landsins með það að markmiði að taka frumkvæði í orkuskiptum í flugi, þjálfa starfsfólk í þessari nýju tækni og kynna hana fyrir landsmönnum.

Fjallað var um komu rafmagnsflugvélarinnar til landsins í kvöldfréttum Stöðvar 2. Umfjöllunina má sjá hér.

Flugvélin sem ber heitið TF-KWH er tveggja sæta af gerðinni Pipistrel og er framleidd í Slóveníu. Hún er á stærð við þær vélar sem notaðar eru í flugkennslu hér á landi og með innflutningi hennar er stigið mikilvægt fyrsta skref í orkuskiptum í flugi. Fyrst um sinn er raunhæft að horfa til orkuskipta minni flugvéla og því næst í farþegaflugi innanlands. Til þess að gera orkuskipti möguleg er samstarf lykilaðila mikilvægt, svo sem flugfélaga, flugvalla og orkufyrirtækja.

Rafmagnsflug ehf. var upphaflega stofnað af Matthíasi Sveinbjörnssyni og Friðriki Pálssyni í árslok 2021 en þeir hafa unnið að því síðastliðin þrjú ár að fá rafmagnsflugvélina til landsins. Fjölmargir aðilar koma að verkefninu og rétt er að geta þess að Eimskip lagði félaginu lið með því að flytja vélina til landsins því að kostnaðarlausu og tryggingafélag flugvélarinnar Consello felldi niður iðgjöld. Sá velvilji, sem mætt hefur félaginu í öllum undirbúningi og innflutningi vélarinnar er ómetanlegur.

Ísland er í einstakri stöðu til þess að vera í fararbroddi í heiminum hvað orkuskipti í flugi varðar vegna stuttra flugleiða innanlands, góðs aðgengis að umhverfisvænni raforku, auk þess sem lega landsins milli Evrópu og Norður-Ameríku getur til framtíðar skapað margvísleg tækifæri þegar kemur að orkuskiptum í millilandaflugi.

Þjálfun flugmanna mun hefjast á næstunni og í kjölfarið verður boðað til viðburðar þar sem fyrsta formlega flugið fer fram.