Kolefnisspor óbreytt og losun með minnsta móti

30.03.2022Umhverfi

Þrátt fyrir aukna orkuvinnslu og að dregið hafi úr samdráttaráhrifum Covid-19 stóð kolefnisspor Landsvirkjunar í stað milli áranna 2020-2021. Kolefnisspor (losun að frádreginni kolefnisbindingu) á orkueiningu er áfram með því lægsta sem þekkist eða 1,2 gCO2íg/kWst.

Þetta er meðal þess sem fram kemur í nýútkomnu loftslagsbókhaldi Landsvirkjunar fyrir árið 2021. Þar kemur jafnframt fram, að kolefnissporið okkar hefur lækkað um 61% frá árinu 2008 og við erum á góðri leið að ná settu marki um kolefnishlutleysi árið 2025.

Heildarlosun jókst lítillega en kolefnisbinding jókst á móti. Mesta aukningu losunar má rekja til aukinnar vinnslu frá jarðvarma, sem stafar af meiri eftirspurn eftir raforku sem og lágri vatnsstöðu uppistöðulóna.

Áfram undir losunarþaki

Losun á orkueiningu í vinnslu okkar er áfram með því lægsta sem þekkist, eða 3,6 gCO2íg á hverja kWst.

Losun á orkueiningu er einstaklega lág í alþjóðlegu samhengi. Evrópusambandið skilgreinir raforku sem mótvægisaðgerð gegn loftslagsbreytingum ef losun vegna framleiðslu hennar (kolefniskræfni) er undir 100 gCO2íg/kWst. Losun okkar á orkueiningu er sem fyrr sagði 3,6 gCO2í/kWst og heldur áfram að vera undir því losunarþaki sem skilgreint er í loftslags- og umhverfisstefnu Landsvirkjunar (4 gCO2íg/kWst).

Kolefnisspor staðfest í fyrsta skipti

Losun gróðurhúsalofttegunda vegna starfsemi fyrirtækisins hefur verið rýnd og staðfest af ytri aðila, alþjóðlega endurskoðendafyrirtækinu Bureau Veritas, frá árinu 2018. Því til viðbótar var kolefnisbinding fyrirtækisins nú einnig staðfest fyrir 2020 og 2021. Með þessu er kolefnissporið sjálft jafnframt staðfest.

Loftslagsbókhald Landsvirkjunar 2021