Landsvirkjun leiðandi í loftslagsmálum

10.12.2020Fyrirtækið

Fær einkunnina A- hjá alþjóðlegu samtökunum CDP, fyrst íslenskra fyrirtækja

Landsvirkjun er talin leiðandi í loftslagsmálum á heimsvísu. Þetta staðfestu alþjóðlegu samtökin CDP þegar Landsvirkjun fékk einkunnina A- fyrir stýringu eigin loftslagsáhrifa og afleiðinga loftslagsbreytinga á starfsemi fyrirtækisins. Samtökin stuðla að samræmdri og faglegri upplýsingagjöf um umhverfismál, ásamt því að veita endurgjöf og hvetja til stöðugra umbóta.

Tæplega tíu þúsund fyrirtæki skila inn upplýsingum til samtakanna á hverju ári. Upplýsingagjöfin er viðamikil og nær utan um loftslagsstýringu fyrirtækja með heildrænum hætti. Meðaleinkunn fyrirtækja í heiminum er C, en meðal fyrirtækja í endurnýjanlegri orkuvinnslu er hún B árið 2020. Landsvirkjun er þannig í hópi 50 orkufyrirtækja sem hljóta einkunnina A- eða A.

Skýr framtíðarsýn

Framtíðarsýn Landsvirkjunar er sjálfbær heimur knúinn endurnýjanlegri orku. Fyrirtækið tekur loftslagsbreytingar mjög alvarlega og telur sitt stærsta framlag til sjálfbærrar þróunar vera að taka ábyrgð í loftslagsmálum, enda eru orkumál loftslagsmál, þar sem um tveir þriðju hlutar af losun gróðurhúsalofttegunda á heimsvísu koma frá orkuvinnslu.

Markvisst starf og bætt frammistaða

Landsvirkjun hefur verið meðvituð um hlutverk sitt og ábyrgð í baráttunni gegn loftslagsvánni og það staðfesti CDP árið 2016, þegar fyrirtækið fékk fyrst mat þess.

Síðustu ár höfum við sett loftslagsmál í forgang með því að horfa heildstætt á málaflokkinn, þvert á starfsemi fyrirtækisins og eru þau samþættuð í alla starfsemina. Að okkar mati höfum við verið á réttri leið undanfarin ár og fögnum staðfestingu CDP á því að við séum leiðandi í loftslagsmálum. Þær aðgerðir og breytingar sem við höfum unnið markvisst að teljast til bestu starfsvenja („best practice“).

Ábyrgð stjórnenda Landsvirkjunar á málaflokknum er skýr. Við höfum sett fram metnaðarfulla aðgerðaáætlun í loftslagsmálum, með skýrum samdráttarmarkmiðum, og innleitt innra kolefnisverð. Raunmæti og umfang loftslagsbókhaldsins okkar er staðfest af ytri endurskoðendum samkvæmt alþjóðlegum stöðlum.

Hörður Arnarson, forstjóri:

„Þessi viðurkenning er okkur hjá Landsvirkjun afar dýrmæt staðfesting á því að við höfum verið á réttri leið í loftslagsmálum undanfarin misseri og ár. Glíman við loftslagsbreytingar snertir kjarnastarfsemi fyrirtækisins og allt starfsfólk á heiður skilinn fyrir að leggja sitt af mörkum í þessum efnum. Það er sérstaklega ánægjulegt að kröfur CDP hafa aukist jafnt og þétt með árunum og því þurfti meira til að fá A-einkunn nú en árið 2016, þegar við hófum þessa vegferð.“