Leiðandi afl í 60 ár
Við gleymum því stundum að formæður okkar og -feður bjuggu ekki við þau lífskjör og þægindi sem við eigum að venjast í daglegu lífi. Sjálft rafmagnið, sem við tökum sem sjálfsögðum hlut og knýr samfélagið frá degi til dags, er rétt ríflega einnar aldar gamalt á Íslandi. Á þessum rúmu hundrað árum höfum við skotist inn í nútímann á ógnarhraða, eftir tíu alda harðræði og nábýli við miskunnarlausa náttúruna.
Í dag er Landsvirkjun, orkufyrirtæki þjóðarinnar, sextíu ára. Hún var stofnuð 1. júlí 1965, í tengslum við komu stóriðju til landsins þegar dregið hafði úr Marshall-aðstoð eftirstríðsáranna og skjóta þurfti nýjum stoðum undir verðmætasköpun þjóðarinnar. Viðreisnarstjórnin hafði tekið við völdum nokkru áður og einsett sér að endurheimta lánstraust Íslendinga, afnema innflutnings- og gjaldeyrishöft, afnema bóta- og styrkjakerfi í útflutningi og auka hagvöxt með nýjum útflutningsgreinum.
Á þessum skamma tíma í Íslandssögunni höfum við náð flestum markmiðum Viðreisnarstjórnarinnar. Ísland er nútímalegt velferðarþjóðfélag með lífskjör á heimsmælikvarða, ekki síst vegna þess að okkur hefur tekist að byggja upp raforkukerfi sem er einstakt á heimsvísu, knúið endurnýjanlegum orkugjöfum. Vatnsaflsstöðvar fyrirtækisins eru orðnar 14 talsins, jarðvarmastöðvar þrjár og vindmyllur tvær. Innan fyrirtækisins hefur byggst upp þekking sem er eftirsótt um allan heim og hefur meðal annars lagt grunninn að alþjóðlegu námi í orkufræðum og þátttöku Íslands í alþjóðlegu orkusamstarfi.
Landsvirkjun hefur aldrei staðið styrkari fótum fjárhagslega. Orkufyrirtæki þjóðarinnar er burðarás í íslensku samfélagi og til þjónustu reiðubúið. Kynslóðin okkar heldur núna á keflinu og við berum ábyrgð á því að nýta styrkleika, þekkingu og reynslu Landsvirkjunar til að tryggja að komandi kynslóðir hugsi jafn hlýlega til okkar og við hugsum til þeirra frumkvöðla sem á sínum tíma sýndu ómetanlega framsýni, djörfung og dug.
Stofnun Landsvirkjunar var mikið heillaskref fyrir íslensku þjóðina og við fögnum því í dag, á 60 ára afmæli fyrirtækisins. Til hamingju Ísland og til hamingju Landsvirkjun!