Ný göngu- og reiðbrú yfir Þjórsá

14.07.2021Samfélag
Horfa á Sumarlandann

Sumarlandinn á RÚV birti fyrir skömmu frásögn af nýju göngu- og reiðbrúnni yfir Þjórsá, rétt ofan Þjófafossa.

Landsvirkjun byggði brúna til að bæta aðgengi að Búrfellsskógi, en hún tengir saman gönguleiðir og reiðstíga beggja vegna Þjórsár, þ.e. í Rangárþingi ytra annars vegar og Skeiða- og Gnúpverjarétti hins vegar.

Eins og fram kemur í umfjöllun Landans er brúin einstök, því allt timbur í hana var fengið úr íslenskum skógi. Þetta er í fyrsta skipti sem íslenskt timbur er CE-vottað, en það eru límtrésbitarnir sem bera uppi brúargólfið. Límtrésbitarnir, sem eru 130x225 mm, 3,2 m langir, voru tjargaðir með náttúrulegri tjöru frá Linolienbutikken í Danmörku. Brúargólfið er tveggja laga og gert úr 50 mm söguðum (ekki hefluðum) borðum. Allt timbur í brúnni, fyrir utan handlistana, eru íslenskt sitkagreni. Girðingarstaurar sitt hvoru megin brúar ásamt áningarhólfi fyrir hesta eru úr ómeðhöndluðu íslensku lerki.

Enn um sinn verður lokað fyrir umferð hestamanna um brúna, á meðan unnið er að aðgerðum innan virkjunarsvæðis Búrfellsstöðva, þar sem ætlunin er að halda opinni leið fyrir hestamenn um Sámsstaðamúla. Vonir standa til að hægt verði að ljúka þeim framkvæmdum síðsumars og í framhaldinu taka brúna að fullu í notkun.

Horfa á Sumarlandann