Nýr slökkvibíll á Hérað

30.06.2025Samfélag

Landsvirkjun styrkti Brunavarnir á Héraði til kaupa á nýjum slökkvibíl og var styrkurinn formlega afhentur slökkviliðinu fyrir skömmu. Með bílnum eflast bruna- og mengunarvarnir á starfssvæði slökkviliðsins.

Styrkur Landsvirkjunar formlega afhentur á viðeigandi stað.
Styrkur Landsvirkjunar formlega afhentur á viðeigandi stað.

Samstarf sem gagnast báðum

Styrkur Landsvirkjunar til bílakaupanna nemur 20 milljónum króna. Orkufyrirtæki þjóðarinnar hefur um árabil styrkt slökkvilið og eflt brunavarnir nærri starfsstöðvum sínum og má sem dæmi nefna kaup á búnaði á Þjórsársvæði, við Blöndu og í Mývatnssveit. Þá heldur Landsvirkjun reglulega æfingar með slökkviliðum á starfssvæðum sínum. Slíkt samstarf hefur alls staðar verið með miklum ágætum og nýtist báðum aðilum vel.

Jóna Bjarnadóttir, framkvæmdastjóri Samfélags og umhverfis, sótti Brunavarnir á Héraði heim og gekk þar formlega frá framlagi Landsvirkjunar með Haraldi Geir Eðvaldssyni slökkviliðsstjóra og Ingvari Birki Einarssyni varaslökkviliðsstjóra.