Nýtt gagnaver atNorth semur um raforkukaup

29.06.2023Viðskipti
Á myndinni eru, frá vinstri: Geir Arnar Marelsson, Tinna Traustadóttir, Valur Ægisson, Benedikt Gröndal  og Sigurbjörg Ýr Guðmundsdóttir. Fremstir á myndinni eru Hörður Arnarson og Eyjólfur Magnús Kristinsson
Á myndinni eru, frá vinstri: Geir Arnar Marelsson, Tinna Traustadóttir, Valur Ægisson, Benedikt Gröndal og Sigurbjörg Ýr Guðmundsdóttir. Fremstir á myndinni eru Hörður Arnarson og Eyjólfur Magnús Kristinsson

Samningur til fimm ára um allt að 5 MW

Landsvirkjun mun sjá nýju gagnaveri atNorth á Akureyri fyrir raforku, samkvæmt nýjum orkusamningi sem gildir frá 1. júní sl. Samningurinn er til 5 ára og tryggir atNorth allt að 5 MW af raforku.

Fyrirtækin hafa jafnframt gert 2 ára skerðanlegan samning um kaup atNorth á allt að 10 MW , en sá samningur fer minnkandi eftir því sem forgangsorkusamningurinn stækkar.

atNorth hefur verið viðskiptavinur Landsvirkjunar um árabil, en hér á landi rekur fyrirtækið einnig gagnaver í Hafnarfirði og Reykjanesbæ. Framkvæmdir við gagnaverið á Akureyri hófust um mitt síðasta ár og formleg vígsla þess var 9. júní sl. Gagnaverið er í 2.500 fermetra byggingu með möguleika til frekari stækkunar.

Aukin eftirspurn eftir gagnavistun

Tinna Traustadóttir, framkvæmdastjóri Sölu og þjónustu hjá Landsvirkjun:

Við óskum atNorth til hamingju með þriðja gagnaverið sitt hér á landi. Staðsetning þess á Akureyri er mjög hentug þar sem mikið álag er nú þegar á raforkukerfinu sunnanlands og æskilegt að dreifa því víðar.

Eyjólfur Magnús Kristinsson, forstjóri atNorth:

Samskipti okkar og Landsvirkjunar hafa frá upphafi verið góð, enda njóta báðir aðilar góðs af. Nýtt gagnaver okkar skapar tækifæri í gagnaversiðnaði á Íslandi en einnig eigum við von á að starfsemin muni hafa margvísleg jákvæð áhrif á atvinnulífið á Akureyrarsvæðinu. Við sjáum mikla aukningu í eftirspurn eftir gagnaversþjónustu og áætlanir okkar gera ráð fyrir tugmilljarða fjárfestingu atNorth samsteypunnar árlega til að mæta þeirri þörf.

Eftirspurn eftir gagnavistun af ýmsum toga eykst stöðugt, rétt eins og þörfin fyrir öflugar tölvur sem eru notaðar við útreikninga, gagnaúrvinnslu og hermanir svo fátt eitt sé nefnt. Ofurtölvuþjónusta eins og atNorth veitir er því mjög eftirsótt, enda hagkvæmt fyrir fyrirtæki að fela sérhæfðum aðilum slíka vinnslu. Þá tryggir veðurfar á Íslandi náttúrulega kælingu á mikilvægum búnaði í gagnaverum.