Nýtt starfsfólk tekur til starfa

19.03.2020Fyrirtækið

Ragnhildur, Steinunn og Birna ganga til liðs við Landsvirkjun.

Ragnhildur Sverrisdóttir, upplýsingafulltrúi.
Ragnhildur Sverrisdóttir, upplýsingafulltrúi.

Ragnhildur Sverrisdóttir ráðin upplýsingafulltrúi hjá Landsvirkjun

Ragnhildur Sverrisdóttir hefur verið ráðin sem upplýsingafulltrúi og sérfræðingur í samskiptum hjá Landsvirkjun. Ragnhildur verður jafnframt staðgengill Magnúsar Þórs Gylfasonar, forstöðumanns samskipta.

Ragnhildur kemur til Landsvirkjunar frá fjárfestingafélaginu Novator þar sem hún hefur starfað sem upplýsingafulltrúi frá árinu 2010. Ragnhildur starfaði um árabil við blaðamennsku á Morgunblaðinu, við innlend fréttaskrif og fréttastjórn, sem og greinaskrif og umsjón Sunnudagsblaðs. Ragnhildur er með BA-próf í lögfræði frá Háskólanum í Reykjavík frá árinu 2006.

Steinunn Jónasdóttir ráðin vefstjóri hjá Landsvirkjun

Steinunn Jónasdóttir hefur verið ráðin sem vefstjóri og sérfræðingur í samskiptum hjá Landsvirkjun. Vefstjóri heyrir undir samskipti og mun reka og þróa Landsvirkjun.is og Landsvirkjun.com í samstarfi við önnur svið fyrirtækisins.

Steinunn kemur til Landsvirkjunar frá Samskipum þar sem hún hefur verið vefstjóri frá árinu 2017. Hún starfaði sem vefstjóri og stjórnandi rafrænnar markaðssetningar hjá A4 2015-2017, var vefstjóri Háskólans í Reykjavík 2007-2015 og vefstjóri og deildarstjóri þjónustudeildar í menntamálaráðuneytinu 2000-2007. Steinunn er með meistaragráðu í mannfræði frá Aarhus Universitet og nam mannfræði við Háskóla Íslands 1993-1996.

Birna Björnsdóttir ráðin stöðvarstjóri Blöndusvæðis

Birna Björnsdóttir var í ársbyrjun ráðin í starf stöðvarstjóra Blöndusvæðis Landsvirkjunar. Undir Blöndusvæði heyrir rekstur Blöndustöðvar og Laxárstöðva I-III.

Birna kemur til Landsvirkjunar frá PCC á Bakka þar sem hún hefur starfað frá árinu 2017, fyrst sem sérfræðingur í gæðamálum og straumlínustjórnun, en síðar sem framkvæmdastjóri kísilframleiðslu. Fyrir þann tíma starfaði Birna hjá Þörungaverksmiðjunni á Reykhólum sem framleiðslu- og öryggisstjóri, hjá Matvælastofnun sem gæðastjóri, hjá Norðuráli sem framleiðsluverkfræðingur og Rio Tinto Alcan sem sérfræðingur í rafgreiningu. Birna er vélaverkfræðingur frá Háskóla Íslands með viðbótarmenntun í framleiðslustjórnun frá University of Porto í Portúgal.