Sjálfbærniskýrsla Landsvirkjunar valin samfélagsskýrsla ársins

08.06.2021Samfélag

„Umfjöllun og áherslur tengist skýrt kjarnastarfsemi fyrirtækisins“

Starfsfólk Landsvirkjunar tók við verðlaununum. Frá vinstri: Magnús Þór Gylfason, Kristján Kristinsson, Kristín Linda Árnadóttir, Hörður Arnarson, Jóhanna Harpa Árnadóttir, Jóna Bjarnadóttir, Sturla Jóhann Hreinsson og Helga P. Finnsdóttir. Myndir: Haraldur Guðjónsson.
Lestu sjálfbærniskýrsluna

Landsvirkjun hlaut verðlaun fyrir samfélagsskýrslu ársins, ásamt BYKO, og voru verðlaunin afhent í húsi Samtaka atvinnulífsins 8. júní.

Í áliti dómnefndar segir að skýrsla Landsvirkjunar hafi verið bæði ítarleg og markviss. Hún geri vel grein fyrir lykiláherslum varðandi sjálfbærni í rekstri með vísan til umhverfis, samfélags og efnahags. Umfjöllun og áherslur tengist skýrt kjarnastarfsemi fyrirtækisins. Áherslurnar byggi á greiningu og samtali við haghafa, sem og þáttum í rekstri sem séu mikilvægir samkvæmt mikilvægisgreiningu.

Viðurkenningin er samstarfsverkefni Festu – miðstöðvar um samfélagsábyrgð, Stjórnvísi og Viðskiptaráðs Íslands og er þetta í fjórða sinn sem hún er veitt. Markmiðið með viðurkenningunni fyrir samfélagsskýrslu ársins er að hvetja fyrirtæki til að setja sér mælanleg markmið og birta reglulega, með vönduðum hætti, upplýsingar um hvernig samfélagsábyrgð og sjálfbærni í rekstri skilar þeim og samfélaginu auknum ávinningi. Skýr stefna, framkvæmd og upplýsingagjöf varði leið að farsælum rekstri.

Hörður Arnarson, forstjóri:

„Við hjá Landsvirkjun höfum allt frá stofnun fyrirtækisins horft til þess að hafa jákvæð áhrif á samfélag og umhverfi og leitum sífellt nýrra leiða til að auka sjálfbærni í starfsemi okkar. Það er þess vegna einkar ánægjulegt að hljóta viðurkenningu sem þessa, og staðfesting á því að starf okkar er að skila sér, bæði sem okkar framlag til sjálfbærari veraldar og einnig – vonandi – sem innblástur fyrir önnur fyrirtæki sem vilja gera vel í þessum mikilvæga málaflokki.“