Stöðugur rekstur í krefjandi veðurfari

20.05.2025Fjármál

Árshlutareikningur Landsvirkjunar frá janúar til mars 2025 er kominn út.

Uppgjör fyrsta ársfjórðungs

Árshlutareikningur janúar til mars 2025

Hagnaður af grunnrekstri Landsvirkjunar á fyrsta ársfjórðungi nam 12 milljörðum króna og handbært fé frá rekstri 13,7 milljörðum. Fjárhagslegur styrkur fyrirtækisins hefur aldrei verið meiri, eiginfjárhlutfall er 67% og skuldsetning er 1,4× rekstrarhagnaður fyrir afskriftir.

Rekstrartekjur hækkuðu á tímabilinu miðað við sama tíma í fyrra, eftir að hafa dregist saman frá metárinu 2023.

Hörður Arnarson, forstjóri:

Helstu upplýsingar úr uppgjöri

„Eftir tímabundinn samdrátt í raforkusölu vegna erfiðrar stöðu í vatnsbúskapnum hefur raforkuvinnsla Landsvirkjunar náð fyrri stöðugleika. Seinni hluta síðasta árs var miðlunarstaða í sögulegu lágmarki, en eftir úrkomusaman vetur á hálendi Íslands er vatnsstaða allra miðlunarlóna fyrirtækisins nú vel yfir sögulegum meðaltölum.

Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar
Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar

Tekjur hækkuðu um 13% frá fyrra ári og námu 162 milljónum Bandaríkjadala, eða um 21,4 milljörðum króna, á fyrsta ársfjórðungi.

Hagnaður af grunnrekstri á fjórðungnum jókst um 18% á milli ára og nam 91 milljón dala, eða rúmlega 12 milljörðum króna. Eiginfjárhlutfall hefur aldrei verið hærra, eða 67% og því stendur Landsvirkjun styrkum fótum í upphafi þess framkvæmdatímabils sem í hönd fer, með byggingu Vaðölduvers (vindorkuvers) og Hvammsvirkjunar (vatnsaflsvirkjunar), auk stækkunar Sigöldustöðvar (vatnsaflsvirkjunar). Nettó skuldir lækka áfram og eru nú 1,4-sinnum rekstrarhagnaður fyrir afskriftir.“