Tímabærar breytingar á raforkumarkaði

05.06.2023Viðskipti

Fleiri fyrirtæki og aukin samkeppni

Breyttu fyrirkomulagi á sölu grunnorku Landsvirkjunar er ætlað að auka gagnsæi og bregðast við breyttum raforkumarkaði þar sem fyrirtækjum hefur fjölgað ört og samkeppni aukist. Lengst af seldi Landsvirkjun grunnorku í heildsölu í gegnum eigin viðskiptavef. Kaupendur raforku á heildsölumarkaði þurftu að leggja inn  bindandi óskir um raforkukaup komandi árs til Landsvirkjunar 1. nóvember hvert ár.

Við blasir að slíkt getur reynst erfitt á síbreytilegum markaði. Þetta fyrirkomulag var barn síns tíma og þjónaði ekki sífellt kvikari markaði þar sem jafnframt er tekist á við sívaxandi orkuþörf. Rík krafa hefur því verið gerð um breytingar, bæði af hálfu orkufyrirtækja og stjórnvalda, eins og fram kemur í orkustefnu Íslands, sem samþykkt er af Alþingi. Ekki sé lengur eðlilegt að bjóða upp á eitt „ríkisverð“, heldur verði eðlileg verðmyndun að eiga sér stað á markaði.

Gamla fyrirkomulagið úrelt

„Landsvirkjun ákvað í október 2022 að gera tilraun með að selja grunnorku með breyttu sniði, svokölluðu söluferli. Sú aðferð hafði áður verið notuð þegar framboð raforku var takmarkað vegna skerðinga vorið 2022, en sætti þá gagnrýni af því að ferlið var allt enn á hendi Landsvirkjunar,“ segir Tinna Traustadóttir, framkvæmdastjóri Sölu og þjónustu hjá Landsvirkjun.

„Markmið breytinganna var að skýra betur framboð og eftirspurn eftir rafmagni auk þess að bæta sýnileika í verðmyndun í viðskiptum með rafmagn. Þá var horft til þess að niðurstöður söluferlisins myndu veita mikilvægar upplýsingar fyrir áframhaldandi þróun markaðar með raforku og umræðu um orkuöryggi. Við erum mjög ánægð með hvernig til tókst, enda var gamla fyrirkomulagið úrelt og löngu tímabært að taka þetta skref.“

Bæði Landsvirkjun og orkukaupendur  töldu mikilvægt að fá óháðan aðila til að sjá um ferlið. Aðkoma slíks aðila væri forsenda þess að nafnleyndar væri gætt um kauptilboð þátttakenda.

Landsvirkjun hafði þá samband við Björgvin Skúla Sigurðsson, enda reynsla hans úr raforkugeiranum og nýsköpun tengdri raforkusölu mikilverðir styrkleikar í úrlausn verkefnisins. Auk þess hafði hann skoðað slíkt verkefni nokkrum árum fyrr og hafði þá þegar unnið grunnvinnu sem nýttist í söluferli Landsvirkjunar. Hann tók að sér umsjón með söluferlinu sem ráðgjafi Landsvirkjunar, í nafni fyrirtækis síns sem heitir Vonarskarð.

Gat ekki verið áfram á hendi Landsvirkjunar

Eftir þetta tilraunaverkefni Landsvirkjunar sl. haust kom í ljós að önnur raforkufyrirtæki höfðu áhuga á að taka þátt í sambærilegu ferli, ekki einungis sem kaupendur heldur einnig sem seljendur, þ.e. þau þeirra sem vinna eigin orku. „Þegar ljóst var að fleiri fyrirtæki vildu taka þátt blasti við að þetta fyrirkomulag á sölu grunnorku gat ekki verið áfram á hendi Landsvirkjunar,“ segir Tinna.  „Landsvirkjun hafði þá samband við Elmu, nýstofnað dótturfyrirtæki Landsnets, um að taka yfir verkefnið en Elma hafði ekki áhuga. Í ljósi þeirrar afstöðu var ákveðið af hálfu Landsvirkjunar að vinna ekki frekar að verkefninu.“

Björgvin Skúli ákvað að eigin frumkvæði að þróa nýtt söluferli sem byggði á þeim hugmyndum að fleiri aðilar tækju þátt á söluhliðinni.  Í kjölfarið kynnti Vonarskarð fyrir fyrirtækjum á raforkumarkaði útfærslu á söluferli raforku sem gerir þátttöku margra aðila á kaup- og söluhlið mögulega.

Um er að ræða sjálfstætt ferli sem er alfarið á vegum Vonarskarðs. Allir skilmálar og sniðmát samninga eru á forræði Vonarskarðs en ekki Landsvirkjunar líkt og í fyrra ferli, enda grundvallarmunur á ráðgjöf Vonarskarðs við eitt fyrirtæki, líkt og í október, eða skipulagningu þess á markaði fyrir mörg fyrirtæki. Greiðsla fyrir þátttöku er í samræmi við gjaldskrá Vonarskarðs og algjörlega óháð Landsvirkjun. Í útboði í apríl sl. tóku því fleiri orkuvinnslufyrirtæki þátt sem seljendur orku, auk Landsvirkjunar.

Framtíðarfyrirkomulag alls óráðið

Forsvarsmaður Vonarskarðs, Björgvin Skúli Sigurðsson, lét af störfum hjá Landsvirkjun fyrir 6 árum en hann starfaði sem framkvæmdastjóri markaðs- og viðskiptaþróunarsviðs fyrirtækisins í fjögur ár. Hann hefur unnið að raforkutengdri nýsköpun um árabil og kynnti m.a. fyrstu hugmyndir sínar um raforkumarkað fyrir Landsvirkjun, Landsneti og sölufyrirtækjum fyrir nokkrum árum. Var þar um nokkurt nýmæli að ræða bæði hvað snertir fyrirkomulag og utanumhald, en hugmyndin varð ekki að veruleika þá.

Þessi störf hans leiddu til þess að Landsvirkjun leitaði til hans sem ráðgjafa sl. haust, þ.e. bæði vegna þekkingar hans og vegna þess að hann hefur tiltrú markaðarins. Það verkefni var langt undir þeim mörkum sem reglur um útboð setja. Greiðsla til hans nam 2,3 milljónum króna. Björgvin Skúli kom svo sjálfur á fót því söluferli sem nú er við lýði þar sem öll raforkufyrirtæki eiga þess kost að taka þátt sem kaupendur og/eða seljendur.

„Þótt þessi tilraunaverkefni hafi gengið ágætlega hefur ekkert verið ákveðið um framhaldið,“ segir Tinna. „Það er mikill misskilningur að Vonarskarð ehf. sé í einhverri lykilstöðu á markaði og ráði yfir vettvangi raforkusölu til frambúðar. Slíkur vettvangur er ekki til enn og alls óvíst hvernig hann verður.“