Tvö samstarfsverkefni hljóta styrk

05.09.2023

Orkídea og Eimur, tvö af samstarfsverkefnum Landsvirkjunar, hlutu nýlega styrk frá Evrópusambandinu.

Ný aðferð til framleiðslu áburðar og lífgass

Skoða vef Orkídeu

Orkídea er í hópi fyrirtækja sem nýverið fengu styrk upp á tæpan milljarð íslenskra króna til að þróa nýja aðferð til framleiðslu áburðar og lífgass úr þeim lífræna úrgangi sem fellur til við fiskeldi á landi og úr landbúnaði.

Verkefnið kallast Terraforming LIFE og er unnið í samstarfi Orkídeu, Landeldis, Bændasamtakanna, Ölfus Cluster og SMJ frá Færeyjum, með stuðningi Blue Ocean Technology í Noregi. Landsvirkjun hefur verið bakhjarl Orkídeu frá upphafi.

Verkefnið hófst 1. júní 2023 og er til fjögurra ára.

Efling sveitarfélaga til orkuskipta

Skoða vef Eims

Þá leiða Eimur, annað fyrirtæki sem Landsvirkjun hefur stutt frá upphafi, og Íslensk Nýorka verkefni hér á landi sem nýverið hlaut 225 milljóna króna styrk úr LIFE styrktaráætlun Evrópusambandsins um umhverfis- og loftslagsmál. Vestfjarðastofa og Samtök sveitarfélaga og atvinnuþróunar á Norðurlandi eystra eru einnig þátttakendur. Samstarfsaðilar utan landsteinanna eru m.a. í Slóveníu, Suðaustur-Svíþjóð og á Spáni. Landsvirkjun er stoltur bakhjarl Eims.

Verkefnið sem um ræðir kallast Rural Europe for the Clean Energy Transition (RECET). Því er ætlað að efla getu sveitarfélaga á fimm svæðum í Evrópu til að takast á við orkuskipti og smíða orkuskiptaáætlanir í sátt við hagsmunaaðila og samstarfi við atvinnulíf.

Sú þekking sem skapast í RECET verkefninu verður aðgengileg öllum sveitarfélögum jafnt á Íslandi sem og annars staðar í Evrópu.

Verkefnið hefst 1. október 2023 og stendur yfir í þrjú ár.

Nýsköpun á landsbyggðinni

Lesa meira um nýsköpun

Landsvirkjun óskar öllum sem að þessum verkefnum koma til hamingju með þessa viðurkenningu á hugmyndaauðgi þeirra og framkvæmdagleði. Við finnum til stolts yfir aðkomu Eims og Orkídeu, sem voru sérstaklega sett á laggirnar til að koma auga á nýsköpunarmöguleika í orkumálum.