Útboð á uppsetningu hrunvarna á Kárahnjúkum

18.09.2021Viðskipti

Miðað er við að bjóða verkið út haustið 2022 og bjóða upp á vettvangsskoðun á verkstað.

Landsvirkjun áformar útboð á verkframkvæmd vegna uppsetningar á hrunvarnargirðingum á Kárahnjúkum sumarið 2023. Miðað er við að útboðsgögn verði tilbúin til afhendingar haustið 2022. Þar sem vetraraðstæður á svæðinu eru krefjandi er einungis mögulegt að skoða verkstaðinn og kynna sér aðstæður að sumri eða hausti verður boðað til vettvangsskoðunar haustið 2022 fyrir væntanlega bjóðendur og eru áhugasamir hvattir til að nýta sér það. Útboðið og vettvangsskoðunin verða auglýst sérstaklega þegar gögnin eru tilbúin til afhendingar.

Verkframkvæmdin snýr að uppsetningu á hrunvarnargirðingum til að hefta hrun grjóts úr Fremri-Kárahnjúk. Þá er einnig talsverð jarðvinna við að gera skeringu til að búa til stall (bermu) bakvið girðingarnar til þjónustu á líftíma.

Verkið er enn í hönnun og því liggja ekki allar forsendur þess fyrir enn sem komið er. Verkið verður hins vegar unnið við krefjandi aðstæður, í miklum bratta og þar sem ekki er áætlaður aðkomuslóði að uppsetningarstaðnum þarf að flytja aðföng að með krana eða þyrlu. Mikil áhersla verður lögð á öryggismál. Verkið mun því krefjast sérhæfðar þekkingar og verða kröfur útboðs í samræmi við það. Áhugasömum verður ekki greitt sérstaklega fyrir að mæta í skoðunarferð á verkstað en eru hvattir til að nýta sér hana og kynna sér aðstæður á staðnum.

Helstu verkþættir og viðfangsefni:

Líkt og áður hefur verið nefnt liggur hönnun mannvirkisins ekki fyrir og er því hér um mjög grófa lýsingu á helstu viðfangsefnum að ræða, helstu verkþættir eru:

  • Uppsetning á tímabundnum hrunvörnum og rekstur þeirra og annarra öryggismála á framkvæmdatíma.
  • Gröftur og skering til að búa til stall fyrir girðingar og stall (um 3 metra breiður) til þjónustu á líftíma mannvirkisins. Vinna þarf í miklum bratta og grafa í laus og föst jarðlög ásamt því að styrkja bakvegg skeringarinnar (u.þ.b. 4 metra há).
  • Uppsetning á um 150 lengdar metrum af hrunvarnagirðingum (5-6 metra háar) í samræmi við kröfur og leiðbeiningar framleiðanda ásamt allri tengdri jarðvinnu og undirstöðuvinnu fyrir mannvirkið (steyptar undirstöður, borun og bergboltun o.fl.)
  • Tryggja (með netun og boltun) lausar skeringar og rofabörð sem eru á framkvæmdasvæðinu.