AIB afléttir útflutningsbanni á upprunaábyrgðum

01.06.2023Viðskipti

Stjórn AIB, evrópskra samtaka útgefenda upprunaábyrgða, ákvað á fundi sínum í dag að aflétta útflutningsbanni á íslenskum upprunaábyrgðum frá og með föstudeginum 2. júní.

Málinu telst þó ekki fulllokið þar sem gerð er krafa um að Landsnet skili stöðumati fyrir 1. október þar sem lagt er mat á hugsanlega tvítalningu upprunaábyrgða og til hvaða aðgerða hafi verið gripið til að koma í veg fyrir slíkt.

Tinna Traustadóttir, framkvæmdastjóri Sölu og þjónustu hjá Landsvirkjun fagnar þessari niðurstöðu og telur hana rétta: „Landsvirkjun fagnar því að útflutningsbanninu hafi verið aflétt og óvissu því samfara eytt. Sala og markaðssetning fyrirtækisins á upprunaábyrgðum er enda í samræmi við reglur þar að lútandi og bestu starfsvenjur.“