Veitir aukinn sveigjanleika í rekstri
Búrfellsstöð II er neðanjarðarstöð, staðsett 300 metra inni í Sámsstaðaklifi. Hún var reist til að nýta framhjárennsli Búrfellsstöðvar, en stöðvarnar nota sama miðlunarlón, mannvirki og tengingar við orkukerfið. Einn 100 megavatta hverfill er í stöðinni og er gert ráð fyrir í hönnun að síðar verði hægt að stækka hana með því að bæta við hverfli.
Miðlunarlón Búrfellsstöðvar II er Bjarnalón, líkt og Búrfellsstöðvar hinar fyrri. Úr því liggur 370 metra langur aðrennslisskurður fram undir brún Sámsstaðaklifs að stöðvarinntaki. Frá stöðvarinntaki fellur vatnið niður um 110 metra löng fallgöng að túrbínu í stöðvarhúsi sem knýr rafalinn. Frá túrbínu er vatninu veitt úr stöðvarhúsinu um 450 metra löng frárennslisgöng og þaðan út í 2,2 kílómetra langan frárennslisskurð sem leiðir það út í Fossá, um kílómetra neðan við gömlu Búrfellsstöð.