Þriðja stærsta raforkuver landsins
Hrauneyjafossstöð er þriðja stærsta raforkuver landsins, 210 megavött. Hún stendur við Sprengisandsleið í jaðri hálendisins, suðvestur af Sigöldustöð og nýtir því sömu vatnsmiðlunarmöguleika og Sigöldustöð. Hrauneyjafossstöð var tekin í notkun 1981.
Miðlunarlón stöðvarinnar er Hrauneyjalón og er það 8,8 ferkílómetrar að stærð. Það var myndað með því að stífla Tungnaá um 1,5 kílómetra ofan við Hrauneyjafoss. Um eins kílómetra langur aðrennslisskurður liggur frá lóninu í norður um lægð í Fossöldu að inntaki við norðurbrún öldunnar. Þaðan liggja þrjár stálpípur 272 metra niður hlíðina að stöðvarhúsi. Frárennslisskurður er rúmlega eins kílómetra langur og liggur út í Sporðöldukvísl sem síðan rennur í Tungnaá.