72 milljónir til 41 styrkþega

08.03.2024Samfélag

Styrkir úr Orkurannsóknasjóði Landsvirkjunar voru veittir við hátíðlega athöfn í Katrínartúni fimmtudaginn 7. mars.

Ánægðir styrkþegar Orkurannsóknasjóðs 2024 stilla sér upp fyrir myndatöku eftir afhendingu styrkja
Ánægðir styrkþegar Orkurannsóknasjóðs 2024 stilla sér upp fyrir myndatöku eftir afhendingu styrkja

72 milljónir til 41 styrkþega

Sjá úthlutanir árið 2024

Í 17. úthlutun Orkurannsóknasjóðs Landsvirkjunar skipti 41 styrkþegi með sér 72 milljónum króna. Styrkþegar eru nemendur í framhaldsnámi á háskólastigi, með skilgreind rannsóknarverkefni.

Að vanda voru þau hin fjölbreytilegustu en öll í samræmi við tilgang Orkurannsóknasjóðs, sem er að efla rannsóknir á sviði umhverfis- og orkumála, hvetja námsfólk til að velja sér viðfangsefni á þeim sviðum, gera fjárframlög orkufyrirtækis þjóðarinnar til rannsókna bæði skilvirkari og sýnilegri og tryggja að þær rannsóknir sem styrktar eru aðstoði við að ná fram framtíðarsýn okkar, sem er sjálfbær heimur knúinn endurnýjanlegri orku.

Að meðtöldum styrkveitingum þessa árs hefur sjóðurinn veitt 413 styrki til rannsóknarverkefna. Viðfangsefnin í námi og rannsóknarverkefnum skiptast nokkuð að jöfnu milli orku- og virkjunarmála og náttúru- og umhverfismála. Í heild hafa styrkir sjóðsins á þessum árum numið 988 milljónum kr.

Mikill fjöldi umsókna

Kristín Linda Árnadóttir, aðstoðarforstjóri Landsvirkjunar, ávarpaði styrkþega.

Kristín Linda Árnadóttir, aðstoðarforstjóri Landsvirkjunar
Kristín Linda Árnadóttir, aðstoðarforstjóri Landsvirkjunar

Hún sagði að sér væri efst í huga þakklæti til allra sem öfluðu sér menntunar og reynslu til að láta gott af sér leiða og hún væri líka þakklát fyrir að Landsvirkjun fengi að styðja þau a.m.k. hluta leiðarinnar að nýsköpun og framförum.

Ragna Karlsdóttir, stjórnarformaður Orkurannsóknasjóðs, upplýsti að í ár hefðu borist 77 umsóknir um styrki, samtals að fjárhæð 441 milljón kr., „en til ráðstöfunar voru 72 milljónir króna og því ljóst að margar vel hæfar umsóknir gátu ekki fengið styrk að þessu sinni.“

Ragna Karlsdóttir, stjórnarformaður Orkurannsóknasjóðs
Ragna Karlsdóttir, stjórnarformaður Orkurannsóknasjóðs

Fróðlegar kynningar á fjölbreyttum verkefnum

Venju samkvæmt kynntu þrír styrkþegar verkefni sín við athöfnina. Það voru þau Benedikt Halldórsson (New physics-based seismic hazard maps for the Tjörnes fracture zone in North Iceland), Snædís Huld Björnsdóttir (Sérstakt vistkerfi íslensks jarðhitavatns) og Hlynur Stefánsson (Microplastics in Glaciers).

Benedikt Halldórsson kynnir verkefni sitt á athöfninni
Benedikt Halldórsson kynnir verkefni sitt á athöfninni
Snædís Huld Björnsdóttir segir frá verkefninu "Sérstakt vistkerfi íslensks jarðhitavatns"
Snædís Huld Björnsdóttir segir frá verkefninu "Sérstakt vistkerfi íslensks jarðhitavatns"
Hlynur Stefánsson kynnir verkefnið "Microplastics in Glaciers"
Hlynur Stefánsson kynnir verkefnið "Microplastics in Glaciers"

Stjórn Orkurannsóknasjóðs

Sjá meira um Orkurannsóknasjóð

Í stjórn Orkurannsóknasjóðs eru nú, auk Rögnu Karlsdóttur formanns, Óli Grétar Blöndal Sveinsson, forstöðumaður yfir þróun vatnsafls hjá Landsvirkjun, Hrund Ólöf Andradóttir, prófessor í umhverfisverkfræði við Háskóla Íslands, Ragnheiður Ólafsdóttir, fyrrverandi umhverfisstjóri Landsvirkjunar, Halldór Guðfinnur Svavarsson, prófessor við tækni- og verkfræðideild Háskólans í Reykjavík og Brynhildur Bjarnadóttir, dósent við hug- og félagsvísindasvið Háskólans á Akureyri.