Bygging Hvammsvirkjunar tefst enn
Hæstiréttur hefur staðfest dóm Héraðsdóms Reykjavíkur frá því í janúar, þess efnis að virkjunarleyfi Hvammsvirkjunar skyldi fellt úr gildi. Byggir dómurinn á því mati að Umhverfisstofnun hafi skort lagastoð til að heimila breytingu á vatnshloti og því geti virkjunarleyfið ekki staðið. Þar er um að kenna mistökum við setningu laga um stjórn vatnamála árið 2011.
Í dómi hæstaréttar segir að í ljósi lögskýringargagna og meðferðar frumvarps til laga um stjórn vatnamála yrði að skýra viðkomandi lið laganna á þann hátt að girt hefði verið fyrir að vatnshloti yrði breytt vegna áhrifa af framkvæmdum við að reisa vatnsaflsvirkjun. Gæti hvorki innri né ytri samræmisskýring leitt til annarrar niðurstöðu en ráðin yrði beint af orðalagi lagaákvæðisins. Virkjunarleyfi Orkustofnunar væri reist á því að heimild fengist til breytingar á vatnshloti. Með ógildingu á leyfi til breytingar á vatnshlotinu hefði grundvöllur virkjunarleyfis brostið.