Bygging Hvammsvirkjunar tefst enn

09.07.2025Hvammsvirkjun, Orka

Hæstiréttur hefur staðfest dóm Héraðsdóms Reykjavíkur frá því í janúar, þess efnis að virkjunarleyfi Hvammsvirkjunar skyldi fellt úr gildi.

Tölvugerð mynd af Hvammsvirkjun
Tölvugerð mynd af Hvammsvirkjun

Bygging Hvammsvirkjunar tefst enn

Hæstiréttur hefur staðfest dóm Héraðsdóms Reykjavíkur frá því í janúar, þess efnis að virkjunarleyfi Hvammsvirkjunar skyldi fellt úr gildi. Byggir dómurinn á því mati að Umhverfisstofnun hafi skort lagastoð til að heimila breytingu á vatnshloti og því geti virkjunarleyfið ekki staðið. Þar er um að kenna mistökum við setningu laga um stjórn vatnamála árið 2011.

Í dómi hæstaréttar segir að í ljósi lögskýringargagna og meðferðar frumvarps til laga um stjórn vatnamála yrði að skýra viðkomandi lið laganna á þann hátt að girt hefði verið fyrir að vatnshloti yrði breytt vegna áhrifa af framkvæmdum við að reisa vatnsaflsvirkjun. Gæti hvorki innri né ytri samræmisskýring leitt til annarrar niðurstöðu en ráðin yrði beint af orðalagi lagaákvæðisins. Virkjunarleyfi Orkustofnunar væri reist á því að heimild fengist til breytingar á vatnshloti. Með ógildingu á leyfi til breytingar á vatnshlotinu hefði grundvöllur virkjunarleyfis brostið.

Sótt um bráðabirgðaleyfi

Sjá vef Hvammsvirkjunar

Landsvirkjun mun að óbreyttu sækja um bráðabirgðaleyfi samkvæmt nýsamþykktum lögum frá Alþingi. Það gildir í eitt ár og á meðan verður farinn enn einn hringur í leyfisveitingaferlinu. Heimilt er að kæra til úrskurðarnefnda og dómstóla að nýju, sem eykur mjög óvissu um hvenær Hvammsvirkjun verður gangsett. Vonandi verður það ferli eins stutt og kostur er. Við erum þakklát fyrir eindreginn stuðning umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra og löggjafans, sem hafa lagt sig fram við að greiða götu þessa verkefnis.

Undirbúningsframkvæmdir fyrir Hvammsvirkjun eru hafnar, s.s. veglagning og undirbúningur vinnubúða og stór útboð voru áætluð á næstu mánuðum en óvíst hvenær verður af þeim.

Þótt stjórnvöld hyggist hraða leyfisveitingaferlinu, öll gögn liggi fyrir og hafi verið rýnd margoft af sömu aðilum, getur Landsvirkjun þó ekki gengið að því vísu að öll leyfi fáist í tíma og þar með er ljóst að byggingu virkjunarinnar mun seinka enn frekar, kostnaður hækka og miklar tekjur tapast.

Þær tafir sem hafa orðið á framkvæmdinni hafa hins vegar lítið sem ekkert með virkjunina sjálfa að gera eða hvernig Landsvirkjun hefur staðið að undirbúningi hennar, enda er Hvammsvirkjun líklega mest rannsakaða verkefni í sögu orkuvinnslu á Íslandi. Þær byggja á töfum á afgreiðslu rammaáætlunar, kærumálum tengdum umhverfismati, annmörkum á málsmeðferð stofnana og nú því nýjasta, dómum Héraðsdóms og Hæstaréttar.

Dýrar tafir fyrir okkur öll

Þegar Landsvirkjun sótti um virkjunarleyfi fyrir Hvammsvirkjun árið 2021 var gert ráð fyrir að framkvæmdir hæfust árið eftir og virkjunin yrði gangsett 2027. Síðustu áætlanir fyrir þetta dómsmál gerðu ráð fyrir gangsetningu árið 2030, en töfin sem dómurinn hefur í för með sér gæti þýtt umtalsverða seinkun til viðbótar.

Viðbótarkostnaðurinn sem af þessu hlýst - og hefur hlotist undanfarin ár - hleypur á milljörðum fyrir Landsvirkjun. Mest er þó tapið fyrir íslenskt samfélag sem verður af þeim verðmætum sem orkan frá Hvammsvirkjun hefði skapað á þessum árum sem fara í súginn.

Skráning á póstlista

Skráðu þig á póstlista Landsvirkjunar. Við sendum reglulega út tölvupósta um viðburði og orkumál auk nýjustu frétta af fyrirtækinu.

Aðrar fréttir