Með tilkomu Ljósafosstöðvar gat fólk skipt yfir í rafmagnseldavélar
Ljósafossstöð er elsta aflstöðin í Soginu, en rekstur hennar hófst árið 1937. Þá voru settar upp tvær vélasamstæður, samtals með 8,8 MW afli. Þriðja vélin bættist við árið 1944 og er hún 6,5 MW.
Við gangsetningu stöðvarinnar var framboð rafmagns á höfuðborgarsvæðinu fjórfaldað. Möguleiki skapaðist á að nota rafmagnseldavélar í stað kolavéla en rafmagnið í Reykjavík frá Elliðaánum og fyrir tíma Ljósafossstöðvar var einkum notað til lýsingar. Til þess að auka nýtingu á raforku frá Ljósafossstöð gátu heimilin fengið eldavél frá Rafha í áskrift með rafmagninu.
Eins og nafnið gefur til kynna stendur stöðin við Ljósafoss, útfall Úlfljótsvatns. Stöðin stendur á árbakkanum austan við fossinn, vatnið er leitt um pípur að hverflum stöðvarinnar og þaðan út í ána neðan við fossinn.