Blöndulón fyllist sögulega snemma

17.05.2025Orka

Óvenjuleg hlýindi á hálendinu undanfarið hafa leyst nánast allan snjó á neðra vatnasviði Blöndulóns. Allar líkur eru á að þessar vorleysingar nái að fylla Blöndulón og eitthvað vatn muni renna á yfirfalli þess.

Vorleysingar fylla Blöndulón

Vatnshæð Blöndulóns

Óvenjuleg hlýindi á hálendinu undanfarið hafa leyst nánast allan snjó á neðra vatnasviði Blöndulóns. Allar líkur eru á að þessar vorleysingar nái að fylla Blöndulón og eitthvað vatn muni renna á yfirfalli þess.

Í vetur var einungis um 40% af forðanum í lóninu nýttur og því stóð lónið óvenjulega hátt í upphafi vorflóða. Ýmsar ástæður liggja þar að baki, orkusala á Norðurlandi hefur dregist saman og flutningstakmarkanir gera það að verkum að ekki er hægt að keyra Blöndustöð á fullum afköstum. Þá hefur viðhald hjá Landsneti á byggðalínu og hjá Landsvirkjun í Blöndustöð verið meira en venjulega.

Nýliðinn vetur var óvenjulegur þar sem hlýrra hefur verið á hálendinu en undanfarin ár. Rennsli til Blöndulóns byrjaði að aukast í febrúar og miklar vorleysingar í apríl og nú aftur í maí hafa nánast fyllt lónið. Á sama tíma hefur nánast allan snjó tekið upp í kringum Blöndulón.

Í gegnum tíðina hefur þetta ekki verið algengt, en kom fyrir í byrjun aldarinnar. Þegar horft er fram í tímann er líklegasta sviðsmyndin sú að lónið fari á yfirfall núna en það muni síðan standa í stað eða lækka fram að upphafi jökulbráðar í júlí. Í sögunni hefur það verið þróunin, og í framhaldinu hefur lónið ekki fyllst fyrr en í byrjun ágúst.

Vatnshæð Blöndulóns. Fjólubláa línan er fyrir vatnshæð yfirstandandi vatnsárs.

Almennt betri staða

Vatnsbúskapur í miðlunarlónum Landsvirkjunar er almennt heldur betri en undanfarin ár. Bæði Þórisvatn og Hálslón eru komin upp fyrir meðaltal.

Fylgjast má með stöðu miðlunarlónanna á Rauntímavöktunarvefnum okkar.