Tökum vel á móti framtíðinni

Græn tækifæri í orkusæknum iðnaði

Við hjá Landsvirkjun tökum framtíðinni fagnandi og ætlum að mæta henni vel undirbúin, með grænu og endurnýjanlegu orkuna okkar í farteskinu.

Heimurinn þarf að taka á loftslagsvandanum og fáir standa betur að vígi en Íslendingar. Stjórnvöld hafa sett það markmið í Orkustefnu Íslands að hætta að kaupa bensín og olíur árið 2050. Við gætum orðið orkusjálfstæð þjóð. Vatnið, jarðvarminn og vindurinn geyma gríðarlega orku. Græna orku, sem við þurfum að beisla til að tryggja áfram gott líf hér á Íslandi. Við teljum okkur líka geta lagt okkar af mörkum til að styðja við aðra heimshluta, til dæmis með útflutningi á grænu eldsneyti.

Við hjá Landsvirkjun erum að skoða kosti þess að framleiða vetni og annað rafeldsneyti hér á landi. Eldsneyti, sem kæmi alfarið í stað jarðefnaeldsneytis. Það er erfitt að ímynda sér hversu hreint og tært loftið okkar verður þegar allur útblástur farartækja hverfur, en veldisvöxtur í fjölda rafbíla og þróun í vinnslu rafeldsneytis fyrir stærri farartæki bendir til að það verði fyrr en flesta grunar.

Framleiðsla matvæla er mjög orkukrefjandi og ljóst að þar þarf að víkja af núverandi braut. Græna rafmagnið okkar er hægt að nýta til stóraukinnar, hátæknilegrar matvælavinnslu. Svokallaður lóðréttur landbúnaður, þar sem grænmeti er framleitt í stórum og háum gróðurhúsum, er eitt dæmi um slíka framleiðslu. Önnur dæmi eru t.d. örþörungaræktun, framleiðsla próteina, ýmis líftækni, þurrkun, frostþurrkun, eiming og úrvinnsla.

Við sjáum einnig möguleika í frekari uppbyggingu gagnavera, eða netþjónabúa, enda sá iðnaður sem einna hraðast vex í heiminum. Á hverjum degi safnast upp ný gögn, sem þarf að dreifa og varðveita með öruggum hætti. Mikla orku þarf til að knýja þann búnað og allt að 40% af rekstrarkostnaði gagnavera er raforka. Við viljum varðveita gögn fortíðar, nútíðar og framtíðar með grænum og vistvænum hætti.

Loks er að nefna þá möguleika sem felast í framleiðslu ýmiss konar rafhlaða, hvort sem er í sístækkandi rafbílaflotann, rafmagnshjól, tölvur eða farsíma. Græna orkan okkar getur tryggt lágt kolefnisspor slíkrar framleiðslu. Framleiðsla rafhlaða gæti skotið fjölbreyttari stoðum undir atvinnulífið, við fengum meiri verðmæti úr orkuauðlindinni okkar og tækjum um leið virkan þátt í orkuskiptum heimsins.

Tökum vel á móti framtíðinni

Orka, tækni og dass af snjallræði

Í sterkri stöðu fyrir orkuskipti

Rafmögnuð verðmætasköpun

Kjöraðstæður fyrir klókar lausnir