Landsvirkjun gefur út græn skuldabréf á Bandaríkjamarkaði

15.05.2025Viðskipti, Fjármál

Landsvirkjun gaf í dag út græn skuldabréf á bandarískum skuldabréfamarkaði (e. US Private Placement), að fjárhæð 150 milljónir bandaríkjadala, sem samsvarar um 20 milljörðum íslenskra króna.

Tölvugerð mynd af Hvammsvirkjun
Tölvugerð mynd af Hvammsvirkjun

Landsvirkjun gefur út græn skuldabréf

Landsvirkjun gaf í dag út græn skuldabréf á bandarískum skuldabréfamarkaði (e. US Private Placement), að fjárhæð 150 milljónir bandaríkjadala, sem samsvarar um 20 milljörðum íslenskra króna.

Upphaflega var stefnt að útgáfu að fjárhæð 125 milljónir USD, en mikill áhugi fjárfesta leiddi til þess að útboðið var stækkað og lauk í 150 milljónum. Skuldabréfin eru á gjalddaga eftir 6 og 8 ár og voru gefin út í þremur flokkum. Tveir flokkanna bera fasta vexti, 5,17% og 5,37%, sem jafngildir 115-125 punkta álagi á bandarísk ríkisskuldabréf. Þriðji flokkurinn ber fljótandi vexti sem miðast við SOFR-vexti með 144 punkta álagi. Um er að ræða skuldabréfaútgáfu án fjárhagslegra skilyrða (e. covenants), sem endurspeglar traust fjárfesta á fjárhagslegri stöðu Landsvirkjunar.

Barclays Capital Inc. og ING Financial Markets LLC voru umsjónaraðilar útgáfunnar. Útgáfan er græn og endurspeglar skýrar áherslur Landsvirkjunar á sjálfbærnitengda fjármögnun.

Fjármögnun nýtt í nýjar virkjanir

Fjármagnið verður nýtt við virkjanaframkvæmdir Landsvirkjunar, þar á meðal framkvæmdir við Vaðölduver og Hvammsvirkjun. Vaðölduver verður fyrsta vindorkuver landsins með 28 vindmyllum. Gert er ráð fyrir að fyrri 14 vindmyllurnar verði gangsettar haustið 2026 og að Vaðölduver verði komið í fullan rekstur fyrir lok árs 2027. Hvammsvirkjun verður áttunda vatnsaflsstöðin á Þjórsár- og Tungnaársvæðinu.

Grænn fjármögnunarrammi

Skuldabréfin eru gefin út innan græns fjármögnunarramma Landsvirkjunar sem endurspeglar skuldbindingu fyrirtækisins við sjálfbærni- og loftslagsmál. Grænum fjármögnunarramma fylgir að fjármunirnir verði nýttir til að fjármagna eignir eða verkefni sem hafa jákvæð áhrif á umhverfi og loftslagsmál.

Skráning á póstlista

Skráðu þig á póstlista Landsvirkjunar. Við sendum reglulega út tölvupósta um viðburði og orkumál auk nýjustu frétta af fyrirtækinu.

Aðrar fréttir