Frétt

Sterk starfsemi þrátt fyrir ytri óróleika

20. nóvember 2020

Efnahagsástandið setur mark sitt á reksturinn en nettó skuldir lækka þó áfram

Helstu atriði árshlutareiknings

  • Hagnaður fyrir óinnleysta fjármagnsliði nam 92,4 milljónum USD (12,8 ma.kr.), en var 129,1 milljón USD á sama tímabili árið áður og lækkar því um 28,4% milli tímabila.
  • Hagnaður tímabilsins var 61,2 milljónir USD (8,5 ma.kr.) en var 90,1 milljón USD á sama tímabili árið áður. 
  • Rekstrartekjur námu 328,0 milljónum USD (45,6 ma.kr.) og lækka um 44,5 milljónir USD (11,9%) frá sama tímabili árið áður.
  • Nettó skuldir lækkuðu um 56,7 milljónir USD (7,9 ma.kr.) frá áramótum og voru í lok september 1.634,7 milljónir USD (227,2 ma.kr.).
  • Handbært fé frá rekstri nam 169,8 milljónum USD (23,6 ma.kr.) sem er 23,6% lækkun frá sama tímabili árið áður.

Hörður Arnarson, forstjóri:

„Áfram setja efnahagsástandið og veirufaraldurinn mark sitt á rekstur Landsvirkjunar. Skórinn kreppir að hjá viðskiptavinum fyrirtækisins, með minnkandi eftirspurn og lækkandi afurðaverði. Eftir mikla lækkun skulda á síðasta áratug er Landsvirkjun þó í ágætri stöðu til að standa af sér storminn og standa með viðskiptavinum sínum á þessum krefjandi tímum. Eins og komið hefur fram höfum við veitt stórnotendum tímabundna afslætti, en einnig höfum við lagt okkar af mörkum í átaki atvinnulífsins í efnahagsmálum, með því að ráðast í ýmsar framkvæmdir, endurbætur og rannsókna- og þróunarverkefni víðs vegar um landið.

Það er ánægjulegt að þrátt fyrir erfiðar aðstæður hefur okkur áfram tekist að lækka nettó skuldir á fyrstu níu mánuðum ársins, en þær eru nú tæpum átta milljörðum króna lægri en um síðustu áramót. Hagnaður fyrir óinnleysta fjármagnsliði, sem er mælikvarðinn sem við lítum gjarnan til þegar við metum rekstur fyrirtækisins, lækkar um 28% miðað við sama tímabil árið áður, en hann nam 92,4 milljónum dollara.

Þrátt fyrir óróleika í ytra umhverfi gekk starfsemi fyrirtækisins vel á tímabilinu. Rekstur aflstöðva gekk vel og í takti við breytt markaðsumhverfi skiptum við markaðs- og viðskiptaþróunarsviði upp í tvö svið, orkusölusvið annars vegar og viðskiptaþróunar- og nýsköpunarsvið hins vegar. Þótt erfiðleikar steðji að efnahagslífinu nú um sinn blasa við ýmis tækifæri fyrir Landsvirkjun í framtíðinni, svo sem í grænni vetnisvinnslu, vistvænum iðngörðum og annarri grænni nýsköpun á borð við Orkídeu- og EIMS-verkefnin á Suður- og Norðurlandi.

Horfur í rekstrarumhverfi fyrirtækisins og efnahagslífi heimsins eru þó áfram óvissar. Þær velta sem fyrr á því hversu vel tekst að hemja útbreiðslu kórónuveirunnar. Nýlegar jákvæðar fréttir af þróun bóluefnis lofa góðu og komist það fljótt á markað nær efnahagslífið í heiminum sér vonandi á strik á ný sem fyrst.“

[1] Til viðmiðunar eru sýndar íslenskar krónur, notast var við gengi USD/ISK 139.

Viðhengi: Fréttatilkynning

Viðhengi: Árshlutareikningur

Fréttasafn Prenta