Frétt

„Geng sæl út í sumarið“

3. júlí 2020
Soffía og Hörður með Baldur "hinn manninn hennar Soffíu" á milli sín

Við kvöddum hana Soffíu okkar í gær, eftir 39 ára starf fyrir Landsvirkjun. Hún hefur svo sannarlega þjónað fyrirtækinu dyggilega og af mikilli trúmennsku í öll þessi ár, en hún hóf störf á byggingardeild árið 1974, þegar skrifstofurnar voru á Suðurlandsbraut 14. Hún færðist fljótlega yfir á skrifstofu forstjóra, þar sem Eiríkur Briem, fyrsti forstjóri fyrirtækisins, réði ríkjum, þá nefndur framkvæmdastjóri. Síðan hefur hún unnið fyrir alla forstjóra Landsvirkjunar.

Aðspurð hvort henni finnist ekki eins og það hafi verið í öðrum alheimi, þegar hún steig 21 árs gömul í fyrsta skiptið inn fyrir dyr hjá Landsvirkjun, svarar Soffía: „Nei, eiginlega ekki! Mér finnst vera alveg ótrúlega stutt síðan. Auðvitað er þetta langur tími, en hann hefur verið svo fljótur að líða. Ég var ung og barnlaus og hafði verið að vinna í háloftunum sem flugfreyja. Yfir því starfi var ævintýraljómi á þeim tíma og það voru því talsverð viðbrigði að koma inn í svona jarðbundið og formfast umhverfi þar sem allt var í föstum skorðum.“

Þriggja daga leiðsögn
Sem fyrr segir hóf Soffía störf hjá byggingarstjóra, en fljótlega var óskað eftir að hún kæmi upp á skrifstofu forstjóra. Og nú er hún nýhætt á sömu skrifstofu forstjóra, 46 árum seinna. Fyrsti ritari forstjóra fór í barneignaleyfi um þetta leyti og sú sem átti að leysa hana af hætti á sama tíma, „þannig að allt í einu var ég þarna ein, eftir að hafa fengið leiðsögn í einhverja þrjá daga. Og það var nóg að gera,“ segir hún, „þetta var áskorun, en það mesta lærðist nokkuð fljótt,“ heldur hún áfram.

„Starfið hefur verið ákaflega fjölbreytt og annasamt og ég var í sambandi við marga innan og utan fyrirtækis, t.a.m. stjórn, viðskiptavini, ráðuneyti og ýmsa hagaðila. Starfið hefur verið í hraðri þróun og ég hef tileinkað mér nýja tækni og sótt námskeið tengd starfinu í gegnum árin,“ segir hún. Spurð hvernig andrúmsloftið hafi verið á þessum tíma segir hún að það hafi verið vinalegt. Vel hafi verið tekið á móti henni. „En svo þegar maður færðist upp á skrifstofuna varð maður var við að það var borin svolítið óttablandin virðing fyrir æðstu stjórnendunum,“ segir hún. „Og það eimir ennþá svolítið eftir af því,“ bætir hún við.

Annar tíðarandi
Soffía segir að Landsvirkjun hafi á þessum árum (og jafnvel nokkuð lengur) verið dæmigerður karlavinnustaður, enda fáar konur starfandi á þeim tíma. „Tíðarandinn var auðvitað mjög frábrugðinn þeim sem er núna og það er ekkert bundið við Landsvirkjun. Á þessum árum var það þannig að karlarnir voru oft á ferðinni, til og frá virkjununum, en konurnar voru fastar á skrifstofunni. Einu sinni á ári var konunum boðið í dagsferð, svokallaða „kvennaferð“. Farið var í rútu og gjarnan einhver stöðin heimsótt. Yfirleitt voru fararstjórarnir tveir karlar, samstarfsmenn okkar á skrifstofunni. Þegar rútan var rétt komin út fyrir bæjarmörkin var fyrsta stopp – farangursrýmið opnað og vodkaflöskur dregnar fram. Í þá daga var engin bjór- eða léttvínsmenning á Íslandi. Fararstjórarnir voru oftar en ekki heldur slompaðri en konurnar, þegar stigið var út til að snæða hádegisverð í einhverri virkjuninni,“ segir Soffía og brosir. „En þetta var tilbreyting og oftast bráðskemmtilegar ferðir,“ bætir hún við.

„En annars hefur hér allt frá upphafi verið mjög öflugt starfsmannafélag og það var snemma farið að huga að ferðum, bæði innanlands og utan. Ég fór í nokkrar skemmtilegar ferðir, t.d. gönguferðir á Fimmvörðuháls, í Jökulfirði og í Fjörður og eftirminnilega ferð til Suður-Þýskalands, Vínarborgar og Búdapest svo ég tali nú ekki um ferðina til Sikileyjar en þar átti ég einmitt að vera stödd um þessar mundir sem Covid-19 kom í veg fyrir,“ segir Soffía. Verkferlar voru eðli málsins samkvæmt nokkuð frábrugðnir þeim sem við eigum að venjast núna, á tuttugustuogfyrstu öldinni. „Eins og gefur að skilja voru engar tölvur komnar til sögunnar og því þurfti að vélrita allan texta, oft í tví- eða þríriti, með kalkipappír á milli. Á þessum árum voru strax komnir ákveðnir verkferlar. Öll erindi bárust bréfleiðis og meðferð skjala var í mjög föstum skorðum. Þá var tölvupóstur ekki kominn til og mikill bunki af umslögum barst á hverjum degi. Ég þurfti að opna öll bréf sem fyrirtækinu bárust, stimpla, ljósrita og setja nöfn þeirra sem þurftu að sjá eða svara erindinu,“ segir hún. Allir starfsmenn voru með inn- og útbakka á skrifborðinu og Soffía dreifði pósti tvisvar á dag. „Talandi um tölvupóst þá voru það telexin sem komust kannski næst honum, en þau voru send í gegnum símalínu. Stundum voru slegnir inn langir samningar og búnir til gatastrimlar sem maður keyrði síðan í gegnum tækið til að hafa sendingartímann sem stystan,“ segir hún.

Glumdi í húsinu
Á Suðurlandsbrautinni var ljósakallkerfi, sem hélt reyndar áfram þegar fyrirtækið flutti á Háaleitisbrautina, þar sem hver og einn starfsmaður hafði sína samsetningu af ljósum í fimm litum, en þetta var fyrir tíma farsímanna. „Ef það náðist ekki í viðkomandi starfsmann – ef hann var ekki inni á skrifstofunni sinni – þá var hann kallaður upp,“ segir Soffía. „Svo komu kalltækin, sem gerðu kleift að kalla á starfsmenn ef þeir svöruðu ekki símanum. Þegar einn forstjórinn uppgötvaði að hægt væri að kalla í öll tækin samtímis – þá gat nú glumið í húsinu væri starfsmaðurinn ekki í sæti sínu,“ segir Soffía hlæjandi. „Nú hef ég aðallega lýst starfinu hvernig það var á fyrri hluta starfstímans,“ segir Soffía, „en ég held að flestir geri sér grein fyrir að starfið hefur breyst mjög mikið með aukinni tækni og starfið orðið mun sjálfstæðara. Hugtakið „að vinna að heiman“ var ekki til og hefði verið óhugsandi á þessum tíma, þó ekki væri nema tækninnar vegna,“ segir hún.

Neyðarhnappar á Kárahnjúkatímanum
Þegar Soffía er spurð hvaða tími hafi verið skemmtilegastur og hvaða tími erfiðastur hjá fyrirtækinu svarar hún því til að líklega hljóti byggingartími Kárahnjúkavirkjunar báða titla. „Það var mikið álag á fólki og mikið fjör, sem mér líkaði vel, en um leið var umræðan í þjóðfélaginu mjög harkaleg. Einu sinni réðst inn her manns og ætlaði að gera einhvern usla og í kjölfarið fengum við öryggishnappa á skrifstofu forstjóra og í móttökunni. Svo þurfti maður að fást við ýmis símtöl frá fólki sem var mikið niðri fyrir,“ segir hún.

Soffía segir aðspurð að á upphafsárum Landsvirkjunar hafi verið litið upp til fyrirtækisins og mikil jákvæðni í garð þess, en síðan hafi gagnrýnin vaxið með aukinni velmegun í þjóðfélaginu, sérstaklega í kringum Kárahnjúkavirkjun. „En núna upp á síðkastið hefur jákvæðnin aftur aukist og mikill meirihluti fólks gerir sér grein fyrir mikilvægi starfseminnar,” segir hún.

Horfir björtum augum til framtíðarinnar
En hvernig er henni innanbrjósts á þessum tímamótum? „Mér líður bara mjög vel og geng sæl út í sumarið. Það hafa orðið miklar breytingar hjá okkur hjónum upp á síðkastið; við fluttum úr húsinu okkar til 33 ára í nýja íbúð og horfum björtum augum til framtíðarinnar. Við hlökkum til þess að eyða meiri tíma með fjölskyldu og vinum og dvelja meira í sumarbústaðnum,“ segir hún. „Vera bara frjáls og njóta lífsins,“ segir Soffía að lokum.

Fréttasafn Prenta