Frétt

Samið um að kanna möguleika á útflutningi á grænu vetni frá Íslandi til Rotterdam

23. október 2020

Landsvirkjun og hafnaryfirvöld í Rotterdam í Hollandi (Port of Rotterdam) hafa gert með sér viljayfirlýsingu (e. „memorandum of understanding“) um svokallaða forskoðun (e. „prefeasibility study“) á útflutningi græns vetnis frá Íslandi til Rotterdam. Samkvæmt viljayfirlýsingunni samþykkja aðilar að deila þekkingu og reynslu, með það í huga að finna flöt á samvinnu og leita tækifæra í vetnismálum.


Rotterdamhöfn er stærsta höfn Evrópu og ein mikilvægasta orkuhöfn í heimi. Hafnaryfirvöld hafa sett fram metnaðarfull áform í vetnismálum og í þeim felst m.a. að Rotterdamhöfn verði aðalinnflutningshöfn fyrir vetni sem flutt verði til orkukaupenda í Evrópu. Hollensk yfirvöld hafa beðið hafnaryfirvöld í Rotterdam að kortleggja hvaðan hægt væri að finna grænt vetni til að fullnægja þörfum evrópskra neytenda.

Framleiðsla á grænu vetni við Ljósafoss
Landsvirkjun tilkynnti nýlega að kannaðir yrðu möguleikar á framleiðslu vetnis við Ljósafossstöð. Framleiðslan fer fram með rafgreiningu vatns með endurnýjanlegum orkugjöfum og verður því umhverfisvæn og laus við útblástur gróðurhúsalofttegunda. Græn framleiðsla á vetni af þessu tagi er enn fátíð í heiminum, en víða er vetni unnið úr jarðgasi og markar umtalsverð kolefnisspor.

Á Loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna, COP 21 í París 2015, sammæltust þátttökuþjóðir um að gera sitt ýtrasta til að hnattræn hlýnun takmarkaðist við 1,5°C, miðað við ástandið fyrir iðnbyltingu. Til að ná þessu markmiði er nauðsynlegt að framkvæma allsherjar orkuskipti á heimsvísu, með því að skipta úr notkun jarðefnaeldsneytis yfir í endurnýjanlega orkugjafa. Vetni er lykilþáttur í orkuskiptaáformum Evrópusambandsins á næstu árum.

Vetnisframleiðsla hefur ekki í för með sér útblástur gróðurhúsalofttegunda, ef til hennar er notað rafmagn úr endurnýjanlegum orkugjöfum. Auk þess að vera hentugur orkumiðill í samgöngum má nýta vetni í rafmagnsframleiðslu og hitaveitu, auk þess sem það er mikilvægur þáttur ýmissa iðnaðarferla. Þessir fjölbreyttu notkunarmöguleikar og sílækkandi framleiðslukostnaður hafa leitt til þess að áhugi á vetnisframleiðslu hefur aukist mjög í heiminum að undanförnu.

Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar:
„Vetni er án efa einn af orkumiðlum framtíðarinnar og mjög spennandi kostur í baráttunni við loftslagsbreytingar. Með því að nota vetni sem miðil getum við flutt endurnýjanlega orku út til meginlands Evrópu og með því aukið framlag okkar til þeirra hnattrænu orkuskipta sem eru óumflýjanleg. Markaðurinn fyrir grænt vetni á meginlandi Evrópu verður án efa gríðarstór þegar fram líður og þessi viljayfirlýsing mun gera okkur kleift að fylgjast með þeirri þróun og taka þátt í henni frá upphafi.“

Allard Castelein, forstjóri Rotterdamhafnar:
„Norðvestur-Evrópa mun þurfa að flytja inn mikið magn vetnis til að ná kolefnishlutleysi. Rotterdam er um þessar mundir stærsta orkuhöfn Evrópu. Við búumst við því að vetni muni taka við af olíu, jafnt sem orkumiðill og sem hráefni til iðnaðarframleiðslu. Við erum þess vegna að skoða möguleikana á innflutningi vetnis frá löndum á borð við Ísland, sem hafa getu til að framleiða mikið magn græns vetnis á samkeppnishæfu verði.“

Fréttasafn Prenta